Fótbolti

Rangers fékk fjórar vítaspyrnur í öruggum sigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gerrard gengur vel í Skotlandi
Gerrard gengur vel í Skotlandi vísir/getty
Strákarnir hans Steven Gerrard völtuðu yfir botnlið St. Mirren í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Rangers minnkaði forskot nágrannanna og erkifjendanna í Celtic á toppi deildarinnar niður í þrjú stig með 4-0 sigri í dag, en Celtic á þó leik til góða.

Fjórar vítaspyrnur voru dæmdar í leiknum og Rangers fékk þær allar. James Tavernier kom Rangers yfir af vítapunktinum strax á þriðju mínútu leiksins.

Hann fór aftur á punktinn á 26. mínútu en þá brást honum bogalistin.

Í upphafi seinni hálfleiks fékk Rangers þriðju vítaspyrnuna og fékk Tavernier traustið á punktinum áfram. Hann þakkaði fyrir það og skoraði annað mark leiksins.

Fjórða vítaspyrnan kom á 80. mínútu, Tavernier fékk ekki að reyna við vítaþrennu, Jermaine Defoe fór á punktinn og skoraði.

Mínútu síðar kom síðasta mark leiksins, það fyrsta sem kom ekki úr vítaspyrnu, það skoraði Ryan Kent eftir sendingu Defoe. Lokatölur 4-0 í Glasgow.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×