Fótbolti

Tvö mörk og stoðsending frá Ronaldo er Juventus tapaði stigum gegn Parma

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ronaldo fagnar í kvöld.
Ronaldo fagnar í kvöld. vísir/getty
Juventus er með níu stiga forskot á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar, Seríu A, eftir dramatískt 3-3 jafntefli gegn Parma í Tórínó í kvöld.

Fyrsta mark Juventus kom ekki úr óvæntri átt en þar var á ferðinni Cristiano Ronaldo en markið skoraði hann á 36. mínútu eftir stoðsendingu frá Blaise Matuidi.

Það var svo á 62. mínútu sem Juventus tvöfaldaði forystuna en Daniele Rugani skoraði þá eftir sendingu Cristiano en tveimur mínutum síðar minnkaði Antonino Barilla muninn fyrir Parma.

Cristiano kom Juventus aftur yfir á 66. mínútu og því þrjú mörk á fjögurra mínútna kafla. Gervinho minnkaði svo muninn aftur fyrir Parma stundarfjórðungi til leiksloka.

Dramatíkinni var ekki lokið því í uppbótartíma skoraði Gervinho annað mark sitt og þriðja mark Parma og tryggði því liðinu jafntefli.

Fyrr í dag vann svo Napoli 3-0 sigur á Sampdoria. Arek Milik, Lorenzo Insigne og Simone Verdi skoruðu mörkin þrjú og bilið milli Juventus og Napoli því orðið níu stig.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×