Erlent

Staðfesta skipun Rex Tillerson í embætti utanríkisráðherra

atli ísleifsson skrifar
Rex Tillerson.
Rex Tillerson. Vísir/afp
Nú er endanlega ljóst að Rex Tillerson, fyrrverandi framkvæmdastjóri olíufyrirtækisins ExxonMobil, verður nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti skipunina í atkvæðagreiðslu í dag þar sem 56 þingmenn greiddu atkvæði með því að staðfesta Tillerson í embætti en 43 gegn.

Hinn 64 ára Tillerson hefur aldrei áður gegnt opinberu embætti og var tilnefningin var mikið gagnrýnd vegna tengsla Tillerson við Rússland.

Tillerson hefur átt í samstarfi við Vladimir Putin Rússlandsforseta og fékk sérstaka vináttuorðu Kreml-hallar árið 2013.

Í frétt BBC kemur fram að við yfirheyrslu í þinginu viðurkenndi Tillerson að rétt væri að Vesturlönd ættu að hafa áhyggjur af uppgangi Rússa. Hann neitaði hins vegar að kalla Pútín stríðsglæpamann.

Í krafti embættis síns sem utanríkisráðherra mun Tillerson  halda utan um samskipti Bandaríkjanna við önnur stórveldi á borð við Rússland og Kína auk þess að semja fyrir hönd Bandaríkjanna um loftslags- og mannréttindamál.


Tengdar fréttir

Trump sakar Demókrata um að flækjast fyrir sér

Segir Demókrata vísvitandi tefja fyrir því að nýir ráðherrar geti tekið til starfa. Demókratar neita að mæta til atkvæðagreiðslu í þingnefndum þar sem ráðherravalið er til staðfestingar. Búast má við að val Trumps á nýjum hæst




Fleiri fréttir

Sjá meira


×