Erlent

Oprah til liðs við 60 Minutes

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sjónvarpskonan ástsæla Oprah Winfrey mun snúa aftur á sjónvarpsskjái Íslendinga á næstunni, en hún mun bætast í teymið á bakvið fréttaskýringaþættina 60 Minutes í haust.

Oprah stýrði spjallþætti sínum, The Oprah Winfrey Show, í 25 ár og var vinsælasti spjallþáttur í sögu bandarísks sjónvarps. Hún stofnaði jafnframt sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Harpo productions og framleiðir fyrirtækið vinsæla þætti á borð við Dr.Phil, The Dr. Oz Show og Rachael Ray.

Í tilkynningu sem send var út í dag sagði Oprah að hún hafi verið mikill aðdáandi 60 minutes frá því hún steig sín fyrstu skref í sjónvarpi.

„Ég er stolt og spennt að bætast í teymi þessa sögufræga þáttar sem er að mínu mati leiðandi í fréttaskýringum. Á tímum þegar fólk er svo klofið er ætlun mín að varpa ljósi á hvað það er sem aðskilur okkur og reyna að koma á samtali á milli fólks af mismunandi uppruna,“ sagði Oprah.

„Það er einungis ein Oprah Winfrey,“ sagði Jeff Fager, aðalframleiðandi þáttanna.

„Hún hefur verið leiðandi í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og er ferill hennar magnaður. Hún hefur tekið þúsundir viðtala við einstaklinga úr öllum kimum samfélagsins. Hún einstök og hæfileikarík kona og heilindi hennar gefa henni sérstöðu og gera það að verkum að hún passar fullkomlega í 60 Minutes. Ég er hæstánægður með að hún komi með sína óviðjafnanlegu og kraftmiklu rödd í þáttinn okkar.“

Þættirnir 60 Minutes hófu göngu sína árið 1968 og njóta enn í dag mikilla vinsælda og eru vinsælustu fréttaskýringarþættir Bandaríkjanna. Þættirnir eru á dagskrá Stöðvar 2 á sunnudagskvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×