Erlent

Juholt verður nýr sendiherra Svíþjóðar hér á landi

atli Ísleifsson skrifar
Sænska ríkisstjórnin hefur samþykkt að skipa Håkan Juholt, fyrrverandi leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, í embætti sendiherra Svíþjóðar á Íslandi.

Sænska utanríkisráðuneytið staðfestir þetta í samtali við SVT.

Juholt gegndi formennsku í sænska Jafnaðarmannaflokknum í tæpa tíu mánuði, frá mars 2011 til janúar 2012. Enginn hefur gegnt embættinu í styttri tíma. Hann lét svo af þingmennsku í haust eftir að hafa átt þar sæti í 22 ár.

Juholt tekur við sendiherrastöðunni hér á landi í september, en sænskir hægrimenn hafa gagnrýnt skipunina.

Juholt tók við formennsku í Jafnaðarmannaflokknum af Monu Sahlin, en Juholt sagði af sér eftir að sænskir fjölmiðlar greindu frá því að hann hafi þegið of háar húsaleigubætur frá þinginu vegna íbúðar sem hann deildi með sambýliskonu sinni. 

Hann endurgreiddi upphæðina og sagðist hafa þegið upphæðina í góðri trú. Málið skaðaði hins vegar flokkinn og sagði hann af sér í ársbyrjun 2012. Stefan Löfven, núverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, tók þá við formannsembættinu í flokknum.

Bosse Hedberg er núverandi sendiherra Svíþjóðar á Íslandi en hann hefur starfað hér á landi frá árinu 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×