Erlent

Þýskaland: Sextán ára stúlka í fangelsi fyrir ISIS-árás

atli ísleifsson skrifar
Stúlkan var flutt í dómshús í morgun.
Stúlkan var flutt í dómshús í morgun. Vísir/EPA
Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt stúlku til sex ára vistar í unglingafangelsi fyrir að hafa ráðist á lögreglumann með hníf á lestarstöð í Hannover í febrúar á síðasta ári.

Stúlkan, sem er bæði með þýskan og marokkóskan ríkisborgararétt, er dæmd fyrir tilraun til manndráps og fyrir að eiga aðild að hryðjuverkasamtökunum ISIS.

Í frétt SVT kemur fram að saksóknari segi stúlkuna hafa ferðast til Istanbúl í Tyrklandi í janúar 2016 í þeim tilgangi að ganga til liðs við ISIS í Sýrlandi. Móðir hennar á þá að hafa stöðvað för hennar en í Tyrklandi fékk stúlkan boð um að framkvæma árás í Þýskalandi.

Tvítugur maður var jafnframt dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsi en hann á að hafa vitað um áætlanir stúlkunnar án þess að tilkynna lögreglu.

Lögreglumaðurinn sem varð fyrir árásinni er 34 ára að aldri, hlaut lífshættulega áverka en lifði af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×