Erlent

Vinsældir Schulz og Merkel mælast jafnmiklar

atli ísleifsson skrifar
Vinsældir Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Jafnaðarmannsins Martin Schulz mælast jafnmiklar samkvæmt nýjustu skoðanakönnun sjónvarpsstöðvarinnar ARD.

41 prósent aðspurðra segjast myndu kjósa Schulz í ímynduðum kosningum þar sem kanslari yrði kosinn beinni kosningu. Sama hlutfall kjósenda myndi kjósa Merkel.

Ljóst var í vikunni að Schulz, sem nýverkið lét af stöðu forseta Evrópuþingsins, verður kanslaraefni Jafnaðarmannaflokksins í þýsku þingkosningunum sem fara fram þann 24. september næstkomandi, eftir að varakanslarainn Sigmar Gabriel sagðist ekki sækjast eftir stöðunni.

Merkel mældist með sjö prósenta forskot á Schulz í sambærilegri könnun sem gerð var í desember.

Þrátt fyrir að vinsældir Schulz séu talsverðar þá á hann mjög erfitt verk fyrir höndum.

Stuðningur þýsks almennings við Jafnaðarmannaflokkinn mælast einungis um 20 prósent, samanborið við 37 prósenta stuðningur við Kristilega demókrata, flokk Merkel. Þrettán prósent styðja hægri popúlistaflokkinn Alternativ für Deutschland og er búist við að flokkurinn muni í fyrsta sinn koma mönnum inn á þýska þingið.

Kristilegir demókratar og Jafnaðarmenn mynda nú saman ríkisstjórn í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×