Skoðun

Stjórnvöld mesta áhættan í rekstri

Gunnar Þór Gunnarsson skrifar
Á seinasta ári gerði Samgöngustofa upp á sitt eindæmi drög að breytingum á reglugerð er varðar akstur með ferðamenn eða hvaða bifreiðar geta talist hópferðabifreiðar. Þrátt fyrir varnaðarorð og breytingartillögur frá fjölda manns voru þessi drög samþykkt af innanríkisráðuneytinu næstum óbreytt.

Þessi reglugerð gerir það að verkum að bifreiðar sem hefur verið breytt sérstaklega til að fá hópferðaleyfi fá nú ekki endurnýjun leyfis. Þá er rekstrargrundvöllur margra þessara fyrirtækja brostinn því þetta gerir atvinnutækin næstum verðlaus og býður ekki upp á að neitt komi í staðinn. Þær reglur sem í gildi voru fyrir breytingu voru mjög vitlausar og tími kominn til endurskoðunar en í þjóðfélagi sem er nú að takast á við ýmsar breytingar í ferðaþjónustu var frekar von á því að hópferðaleyfi væri auðsóttara og á óbreyttar bifreiðar en þannig hljóðaði tillaga til lagabreytinga sem ekki fékkst afgreidd á nýliðnu þingi.

Gamla reglugerðin bauð upp á glufu sem margir hafa notfært sér og byggt sinn rekstur á. Þetta var að hækka þurfti bifreið um 10% frá götu umfram það sem framleiðandi gaf upp. Þetta var auðvitað arfavitlaust en bauð upp á að hægt væri að notast við 9 manna bifreiðar og minni til að keyra fólk um landið. Nú er hins vegar aðeins í boði að keyra fólk um landið á bifreiðum sem taka fleiri en 9 manns eða á jeppum sem eru á 33" (780 mm) stórum hjólbörðum hið minnsta.

Samgöngustofa bendir á að í mörgum tilfellum sé hægt að skrá bifreiðina sem eðalvagn en sú reglugerð var rýmkuð þannig að fleiri bifreiðar falla undir þá skilgreiningu. Skilgreining á eðalvagni virðist vera samin með því að bleyta puttann og stinga honum upp í vindinn! Gerð er krafa m.a. um að dýri sé slátrað (leðurinnrétting) og að ökutæki með stök sæti skuli hafa armhvílur báðum megin! Þá fæst ekki eðalvagnaleyfi nema á eiganda bifreiðarinnar sem ekki má vera fyrirtæki. Þetta er mjög takmarkandi þáttur í rekstri og þegar kalla þarf til aðra bílstjóra. Fyrirtæki sem hefur notast við eigin 9 manna bifreiðar hefur því ekki lengur sama rekstrargrundvöll.

Fyrir hverja er reglugerðin?

Fyrir hverja eru þessar reglugerðir settar? Alveg víst að það er ekki fyrir hinn almenna ferðamann sem hefur engan áhuga á að vera í stórri rútu eða í risajeppa. Hér er m.a. verið að vernda leigubílafyrirtæki en það er allt á misskilningi byggt því þessir hópar eru ekki í samkeppni. Leiðsögumaður ekur með sína gesti eftir fyrirfram ákveðinni leiðarlýsingu og tekur ekki upp aðra farþega en þá sem hafa bókað fyrirfram. Leiðsögumenn með aukin ökuréttindi (meirapróf) sem vilja bjóða upp á ferðir um landið í minni bifreiðum mega það ekki samkvæmt þeim reglugerðum sem eru í gildi.

Stjórnvöld virðast frekar vilja að ferðamenn leigi sér bifreiðar og keyri reynslulausir um landið í aðstæðum sem þeir þekkja ekki. Leiðsögumaður með aukin ökuréttindi má heldur ekki setjast upp í bílaleigubíl og keyra þetta sama fólk.

Nú í byrjun árs eru menn að vakna upp við þessa martröð því breytingin fór hljótt og endurnýjuð skoðun fæst ekki á ökutækin. Þá rignir fyrirspurnum yfir Samgöngustofu sem gerir lítið úr vanda hundraða einstaklinga og fyrirtækja.

Að okkar mati hjá tækninefnd Félags leiðsögumanna er það bagalegt þegar helsti áhættuþáttur í rekstri er stjórnvöld og mun reglugerðarbreytingin líklega gera það að verkum að fleiri aki án leyfa. Þá er erfitt að gefa upp tekjur af því sem er ólöglegt og því líklegt að stjórnvöld verði af skatttekjum í greininni.

Við höfum sent tillögur til þeirra ráðuneyta sem hafa með málið að gera og erum að bíða eftir að Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, þekkist boð okkar um fund.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×