Skoðun

Víðerni, viðmið og væntingar

Sverrir Jan Norðfjörð skrifar
Undanfarin misseri hefur umræðan um víðerni miðhálendisins verið ofarlega á baugi og að þau séu meðal annars eitt einkenna íslenskrar náttúru og mikilvægt aðdráttarafl ferðamanna.

Með gildistöku nýrra náttúruverndarlaga árið 2015 og samþykktrar landsskipulagsstefnu árið 2016 er sérstaklega vikið að víðernum, þau endurskilgreind og skapaður grundvöllur til að hlúa að þeim og verndun þeirra. Til þess að svo megi verða liggur fyrir að ráðast þarf í gerð nýrrar kortlagningar sem sýnir umfang og þróun víðerna. Í landsskipulagsstefnu var Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun falið að hafa forgöngu um það verk og ákveða viðmið fyrir mat á umfangi víðerna út frá skipulagssjónarmiðum og að til staðar verði uppfærð kort sem sýni umfang víðerna fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila.

Það er mikilvægt allri áætlanagerð að til staðar sé skýr stefna stjórnvalda auk nauðsynlegra grunngagna, í tilviki kerfisáætlunar Landsnets er mikilvægt að til staðar sé stefna um uppbyggingu raforkukerfisins og viðmið sem nýtast við að meta umfang og gæði víðerna. Landsnet væntir þess að við gerð næstu kerfisáætlunar liggi þessi atriði skýrar fyrir en við gerð þeirrar sem nýlega hefur verið kynnt og hvetur þá sem bera ábyrgð á þeirri vinnu að ljúka henni sem fyrst.

Kerfisáætlun Landsnets er lögð fram árlega og byggir hverju sinni á fyrirliggjandi gögnum, líkt og lög kveða á um og gert var í nýkynntri áætlun. Landsnet mun taka tillit til nýrra gagna sem snúa að víðernum sem og öðrum þáttum við gerð framtíðar kerfisáætlana.

Hin árlega endurskoðun með samtali við almenning og hagsmunaðila er hluti af þróunarferli kerfisáætlunar og stuðlar að því að sem mest sátt náist um innihald hennar. Landsnet þakkar þær ábendingar sem fram komu við gerð kerfisáætlunar 2016-2025, sem verið er að vinna úr. Allar athugasemdir og viðbrögð við þeim verða birt á www.landsnet.is þegar þeirri vinnu er lokið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×