Fótbolti

14 dagar í Rúmeníuleikinn: Fimmtán þeirra sem tóku þátt í síðustu leikjum við Rúmeníu hafa þjálfað í Pepsi Max deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson gerði KR að Íslandsmeisturum síðasta haust en hann lék leikina á móti Rúmeniu í undankeppni HM haustið 1996 og haustið 1997.
Rúnar Kristinsson gerði KR að Íslandsmeisturum síðasta haust en hann lék leikina á móti Rúmeniu í undankeppni HM haustið 1996 og haustið 1997. Vísir/Bára

Umspilsleikurinn á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum 26. mars næstkomandi verður fyrsti leikur þjóðanna í 22 ár og fimm mánuði eða síðan 10. september 1997. Mjög margir þjálfarar í íslenska boltanum í dag spiluðu annan eða báða þessa leiki við Rúmena.

Ísland tekur á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undanúrslitaleik í umspili um laust sæti á EM 2020 og sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM. Vísir telur niður í leikinn með því að skoða betur þennan stærsta heimaleik í sögu íslenska landsliðsins eða líta til baka á söguleg tengsl þjóðanna á knattspyrnuvellinum.

Þrír þjálfarar í Pepsi Max deildinni í sumar spiluðu þennan leik með íslenska landsliðinu í Búkarest eða þeir Rúnar Kristinsson (KR), Brynjar Björn Gunnarsson (HK) og Óskar Hrafn Þorvaldsson (Breiðablik). Óskar Hrafn var þarna að spila sinn fyrsta landsleik og kom inn fyrir Arnar Grétarsson á 81. mínútu.

Arnar Grétarsson er einn af sex leikmönnum liðsins í Búkarest sem hafa líka þjálfað í efstu deild á Íslandi en hinir eru Ríkharður Daðason, Gunnlaugur Jónsson, Hermann Hreiðarsson, Sigurður Jónsson og Helgi Sigurðsson sem nú þjálfar 1. deildarlið ÍBV. Á bekknum var síðan einn í viðbót eða Bjarni Guðjónsson fyrrum þjálfari Fram og KR.

Í fyrri leiknum á móti Rúmenum á Laugardalsvellinum voru líka með menn sem hafa þjálfað í efstu deild og þar af tveir núverandi eða þeir Heimir Guðjónsson (Val) og Arnar Gunnlaugsson (Víkingi). Ólafur Þórðarson og Bjarki Gunnlaugsson spiluðu líka þann leik og þá var Ágúst Gylfason (þjálfari Gróttu) á varamannabekknum í leiknum á Laugardalsvellinum.

Samtals gera þetta fimmtán manns sem hafa þjálfað í efstu deild á Íslandi og spiluðu einnig annan eða báða þessa leiki við Rúmena fyrir rúmum 22 og 23 árum síðan.

Lárus Orri Sigurðsson og Eyjólfur Sverrisson léku einnig fyrri leikinn á móti Rúmeníu en þeir hafa einnig þjálfað mikið þó þeir hafi ekki stýrt liði í efstu deild á Íslandi.



Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×