Innlent

Það skýrist í haust hver kostnaðurinn verður

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir er framkvæmdastjóri undirbúnings hátíðahalda í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands á næsta ári.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir er framkvæmdastjóri undirbúnings hátíðahalda í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands á næsta ári.
Stjórnmál Nefnd sem Alþingi skipaði til að annast undirbúning og framkvæmd aldarafmælishátíðar sjálfstæðis og fullveldis Íslands, sem fagnað verður á næsta ári, hefur hafið störf og vinnur nú að gerð fjárhagsáætlunar. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri verkefnisins, segir aðspurð að það muni skýrast með haustinu hvað hátíðahöldin muni kosta ríkissjóð. „Við erum að greina þetta allt niður núna og það mun skýrast þá. Við fáum ákveðin verkefni sem við eigum að sinna og erum að vinna núna í hvernig þetta fjármagn á að fara í þau verkefni sem talin eru upp í þingsályktun. Auk þess munum við styðja við fjöldann allan af verkefnum. Í lok ágúst munum við kalla eftir verkefnum á dagskrána sem við munum styðja.“ Þingsályktun um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands var samþykkt á Alþingi í október 2016 og í desember skipaði Alþingi nefnd til að annast undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar árið 2018. Meðal verkefna nefndarinnar, sem Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis veitir formennsku, er að láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna. Stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins og stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á afmælisárinu svo fátt eitt sé nefnt. Þá verður haldinn hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018. – smj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×