Fótbolti

Scholes kippir sér ekki upp við það að Roy Keane valdi hann ekki í draumaliðið sitt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rio Ferdinand og Paul Scholes í myndveri BT sport á síðasta ári.
Rio Ferdinand og Paul Scholes í myndveri BT sport á síðasta ári. mynd/skjáskot

Roy Keane er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og þegar hann var beðinn um að velja draumalið sitt á tíma sínum hjá Manchester United vakti athygli margra að í liðinu var enginn Paul Scholes.

Árið 2013 var Keane beðinn um að velja draumalið sitt fyrir heimildarmynd á ITV og með honum á miðjunni voru þeir Paul Ince, David Beckham og og Eric Cantona. Ekkert pláss fyrir hinn sigursæla Scholes.

Þegar Keane valdi þetta lið var Patrick Vieira einnig í settinu og hann spurði strax hvar Scholes væri. „Að hafa átt frábæran feril þýðir ekki að þú sért frábær leikmaður. Það er mikill munur þar á. Á ég að skilja Ronaldo einn besta leikmann heims eftir? Eða Beckham?“

Scholes var í hlaðvarpsþætti Manchester United á dögunum þar sem hann var spurður út í þetta liðsval Írans og það mátti heyra á Scholes að þetta truflaði hann lítið sem ekkert.

„Þegar fólk velur þeirra lið þá eru mismunandi skoðanir. Ég og David May gætum setið hér í allan dag og valið tíu mismunandi lið með öllum þessum frábæru leikmönnum sem við spiluðum með. Þetta truflaði mig ekki og gerir það ekki enn,“ sagði Scholes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×