Erlent

Lögreglumaður sem skaut óvopnaðan blökkumann til bana rekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Murphy Paul, lögreglustjórinn í Baton Rouge, tilkynnti um brottrekstur lögreglumannsins í gær.
Murphy Paul, lögreglustjórinn í Baton Rouge, tilkynnti um brottrekstur lögreglumannsins í gær. Vísir/AFP
Lögreglan í Baton Rouge í Lúisíana í Bandaríkjunum hefur rekið lögregluþjón sem skaut Alton Sterling, óvopnaðan blökkumann, til bana árið 2016. Félaga hans var vikið tímabundið frá störfum. Báðir sleppa hins vegar við ákæru vegna dauða Sterling.

Greint var frá því í síðustu viku að saksóknarar í Lúisíana hefðu ákveðið á ákæra ekki lögreglumennina tvo. Annar þeirra skaut Sterling sex skotum fyrir utan kjörbúð í júlí árið 2016. Alríkisstjórnin kaus einnig að ákæra lögreglumennina ekki.

Dauði Sterling var kveikjan að mótmælum í borginni en mikil umfjöllun var þá um lögregluofbeldi gegn blökkumönnum í Bandaríkjunum.

New York Times segir að á myndbandsupptökum sjáist Blane Salamoni, lögreglumaðurinn sem nú hefur verið rekinn, hreyta fúkyrðum í Sterling, slengja honum á bíl, skipa félaga sínum að gefa Sterling rafstuð og hóta að skjóta hann á meðan hann miðaði byssu sinni á höfði Sterling.

Hinum lögreglumanninum, Howie Lake II, var vikið frá störfum í þrjá daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×