Uppgjörið: Fram - Valur 22-20 | Fram í bikarúrslit Hinrik Wöhler skrifar 27. febrúar 2025 17:16 Gleðin var við völd þegar sætið í úrslitum var tryggt. Vísir/Vilhelm Fram gerði sér lítið fyrir og sigraði Val með tveimur mörkum í undanúrslitum Powerade-bikarkeppni kvenna í handbolta. Síðustu mínútur leiksins voru spennuþrungnar en Framarar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og sigruðu 22-20. Dauðafærin fóru forgörðum í upphafi leiks hjá Valskonum ásamt því að gera mörg klaufaleg mistök í sóknarleiknum. Á sama tíma gekk Framörum vel í sókninni og gengu á lagið á fyrstu mínútum leiksins. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var það ósáttur með gang mála að hann tók leikhlé eftir aðeins sex mínútna leik og þá var staðan 3-0, Fram í vil. Agúst Jóhannsson hafði séð nóg og tók leikhlé eftir sex mínútur.Vísir/Vilhelm Darija Zecevic, markvörður Fram, reyndist Valskonum erfið og varði flest skot sem kom á markið. Eftir tæpar tíu mínútur kom fyrsta mark Vals og staðan orðin 5-1. Í kjölfarið vöknuðu Valskonur og áttu auðveldar með að opna vörn Framara og leituðu mikið inn á línu. Munurinn minnkaði smátt saman þegar leið á fyrri hálfleik og fór sóknarleikur Fram að hökta. Valskonur náðu loks að jafna í stöðunni 9-9, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Leikmenn Vals héldu áfram og komust loks yfir í fyrsta sinn í leiknum og fóru inn í hálfleik með eins marks forskot, 11-10. Karen Knútsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Fram í kvöld.Vísir/Vilhelm Þó að Valskonur hefðu yfirhöndina undir lok fyrri hálfleiks komu Framarar mun beittari til leiks í seinni hálfleik. Framkonur spiluðu oftar en ekki langar sóknar en á endanum fundu þær glufur í Valsvörninni sem skilaði marki eða víti. Þær nýttu yfirtöluna vel og skoruðu tvö mörk í röð í autt mark Vals og var meðbyrinn með Fram í upphafi seinni hálfleiks. Framkonur leiddu með fjórum mörkum þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og voru búnar að snúa stöðunni við. Líkt og í fyrri hálfleik vöknuðu Valskonur til lífsins og á stuttum kafla undir lok leiks og náðu þær að saxa á forskot Fram. Þórey Rósa Stefánsdóttir leiðir fögnuð Framara.Vísir/Vilhelm Leikmenn Fram virtust spennast upp við þessa mótspyrnu og fór sóknarleikurinn að hiksta. Valskonur náðu loks að jafna í 20-20 þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Framarar áttu þó síðustu tvö mörk leiksins og ráku smiðshöggið á frábæran sigur. Leikurinn endaði 22-20 og Framarar leika til úrslita á laugardaginn en Valskonur sitja eftir með sárt ennið. Atvik leiksins Laglegasta mark leiksins átti Lena Margrét Valdimarsdóttir þegar hún skoraði beint úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn í fyrri hálfleik. Hún skaut knettinum yfir hávaxinn varnarmúr Vals og fram hjá Hafdísi Renötudóttir í markinu. Framkonur fögnuðu markinu vel og innilega og var mikill meðbyr með þeim í upphafi seinni hálfleiks. Stjörnur og skúrkar Það er óhætt að segja að markvörður Fram, Darija Zecevic, hafi leikið við hvern sinn fingur í kvöld. Hún varði aragrúa af dauðafærum, mörg þeirra á mikilvægum augnablikum og skoraði einnig eitt mark. Svartfellski markvörðurinn, Darija Zecevic, reyndist Valskonum erfið.Vísir/Vilhelm Vörn Framara var þétt fyrir framan Dariju og dreifðist markaskorunin jafnt á milli lykilleikmanna Fram. Skotnýting Valskvenna var dræm og með betri nýtingu á dauðafærum og jafnframt utan af velli hefðu úrslitin líklegast verið önnur. Dómarar Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson fengu það hlutverk að dæma fyrri undanúrslitaleik dagsins. Það voru ýmis sóknarbrot í gegnum leikinn sem þjálfarar beggja liða furðuðu sig á. Það hallaði þó á hvorugt liðið og stenst tvíeykið prófið þrátt fyrir vafaatriði hér og þar. Stemning og umgjörð Þó það sé mikill söknuður af bikarvikunni í Laugardalshöll þá standa Ásvellir sína plikt og líklegast næstbesti kosturinn á eftir þjóðarhöllinni. Það var mikil stemning og læti í áhorfendum, sérstaklega undir lok leiks, þegar spennan var sem mest. Valskonur fljúga ekki í úrslit í ár.Vísir/Vilhelm Framarar munu líklegast fjölmenna á laugardaginn en bæði lið félagsins leika til úrslita í Powerade-bikarnum í handbolta. Viðtöl Ágúst: „Við fáum dauðafæri eftir dauðafæri“ Ágúst Jóhannsson var ósáttur með færanýtinguna í kvöld.Vísir/Vilhelm Ágúst Jóhansson, þjálfari Vals, segir úrslitin sanngjörn og bætir við að markvarslan hjá Fram hafi riðið baggamuninn í jöfnum leik. „Darija var maður leiksins og varði örugglega 20 bolta og þar af gríðarlega mikið af dauðafærum. Það er eiginlega stóri munurinn,“ sagði Ágúst skömmu eftir leik. Hann segir jafnframt að varnarleikur Vals hafi verið öflugur en slæm færanýting gerði þeim erfitt fyrir. „Varnarleikurinn okkar, 3-2-1 vörnin, þær sáu ekki til sólar þar. Þær skora ekki í uppstilltum sóknarleik og við fáum dauðafæri eftir dauðafæri og förum rosalega illa með upplögð tækifæri.“ „Við erum að spila við gríðarlega gott lið og reynslumikið þannig þessi leikur gat dottið báðum megin. Úr því sem komið var áttu þær skilið að taka þetta,“ sagði Ágúst. Ágúst var ekki nægilega sáttur með frammistöðu leikmanna Vals í leiknum og fannst vanta meiri kraft í spilamennskuna. „Við vorum ekki að spila vel í dag en tek ekki neitt af Fram. Við vorum ekki að spila nægilega vel og fannst vanta pínu meiri orku og áreiðni. Við vorum ekki að vinna stöður, maður og maður og sérstaklega sóknarlega.“ „Vorum ekki lík sjálfum okkur en ég tek ekkert af Fram, þær spiluðu vel. Þegar þetta er gert upp eiga þær þetta skilið og við bítum í það súra epli að fara ekki í úrslitaleikinn,“ sagði þjálfarinn að endingu. Powerade-bikarinn Valur Fram
Fram gerði sér lítið fyrir og sigraði Val með tveimur mörkum í undanúrslitum Powerade-bikarkeppni kvenna í handbolta. Síðustu mínútur leiksins voru spennuþrungnar en Framarar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og sigruðu 22-20. Dauðafærin fóru forgörðum í upphafi leiks hjá Valskonum ásamt því að gera mörg klaufaleg mistök í sóknarleiknum. Á sama tíma gekk Framörum vel í sókninni og gengu á lagið á fyrstu mínútum leiksins. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var það ósáttur með gang mála að hann tók leikhlé eftir aðeins sex mínútna leik og þá var staðan 3-0, Fram í vil. Agúst Jóhannsson hafði séð nóg og tók leikhlé eftir sex mínútur.Vísir/Vilhelm Darija Zecevic, markvörður Fram, reyndist Valskonum erfið og varði flest skot sem kom á markið. Eftir tæpar tíu mínútur kom fyrsta mark Vals og staðan orðin 5-1. Í kjölfarið vöknuðu Valskonur og áttu auðveldar með að opna vörn Framara og leituðu mikið inn á línu. Munurinn minnkaði smátt saman þegar leið á fyrri hálfleik og fór sóknarleikur Fram að hökta. Valskonur náðu loks að jafna í stöðunni 9-9, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Leikmenn Vals héldu áfram og komust loks yfir í fyrsta sinn í leiknum og fóru inn í hálfleik með eins marks forskot, 11-10. Karen Knútsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Fram í kvöld.Vísir/Vilhelm Þó að Valskonur hefðu yfirhöndina undir lok fyrri hálfleiks komu Framarar mun beittari til leiks í seinni hálfleik. Framkonur spiluðu oftar en ekki langar sóknar en á endanum fundu þær glufur í Valsvörninni sem skilaði marki eða víti. Þær nýttu yfirtöluna vel og skoruðu tvö mörk í röð í autt mark Vals og var meðbyrinn með Fram í upphafi seinni hálfleiks. Framkonur leiddu með fjórum mörkum þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og voru búnar að snúa stöðunni við. Líkt og í fyrri hálfleik vöknuðu Valskonur til lífsins og á stuttum kafla undir lok leiks og náðu þær að saxa á forskot Fram. Þórey Rósa Stefánsdóttir leiðir fögnuð Framara.Vísir/Vilhelm Leikmenn Fram virtust spennast upp við þessa mótspyrnu og fór sóknarleikurinn að hiksta. Valskonur náðu loks að jafna í 20-20 þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Framarar áttu þó síðustu tvö mörk leiksins og ráku smiðshöggið á frábæran sigur. Leikurinn endaði 22-20 og Framarar leika til úrslita á laugardaginn en Valskonur sitja eftir með sárt ennið. Atvik leiksins Laglegasta mark leiksins átti Lena Margrét Valdimarsdóttir þegar hún skoraði beint úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn í fyrri hálfleik. Hún skaut knettinum yfir hávaxinn varnarmúr Vals og fram hjá Hafdísi Renötudóttir í markinu. Framkonur fögnuðu markinu vel og innilega og var mikill meðbyr með þeim í upphafi seinni hálfleiks. Stjörnur og skúrkar Það er óhætt að segja að markvörður Fram, Darija Zecevic, hafi leikið við hvern sinn fingur í kvöld. Hún varði aragrúa af dauðafærum, mörg þeirra á mikilvægum augnablikum og skoraði einnig eitt mark. Svartfellski markvörðurinn, Darija Zecevic, reyndist Valskonum erfið.Vísir/Vilhelm Vörn Framara var þétt fyrir framan Dariju og dreifðist markaskorunin jafnt á milli lykilleikmanna Fram. Skotnýting Valskvenna var dræm og með betri nýtingu á dauðafærum og jafnframt utan af velli hefðu úrslitin líklegast verið önnur. Dómarar Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson fengu það hlutverk að dæma fyrri undanúrslitaleik dagsins. Það voru ýmis sóknarbrot í gegnum leikinn sem þjálfarar beggja liða furðuðu sig á. Það hallaði þó á hvorugt liðið og stenst tvíeykið prófið þrátt fyrir vafaatriði hér og þar. Stemning og umgjörð Þó það sé mikill söknuður af bikarvikunni í Laugardalshöll þá standa Ásvellir sína plikt og líklegast næstbesti kosturinn á eftir þjóðarhöllinni. Það var mikil stemning og læti í áhorfendum, sérstaklega undir lok leiks, þegar spennan var sem mest. Valskonur fljúga ekki í úrslit í ár.Vísir/Vilhelm Framarar munu líklegast fjölmenna á laugardaginn en bæði lið félagsins leika til úrslita í Powerade-bikarnum í handbolta. Viðtöl Ágúst: „Við fáum dauðafæri eftir dauðafæri“ Ágúst Jóhannsson var ósáttur með færanýtinguna í kvöld.Vísir/Vilhelm Ágúst Jóhansson, þjálfari Vals, segir úrslitin sanngjörn og bætir við að markvarslan hjá Fram hafi riðið baggamuninn í jöfnum leik. „Darija var maður leiksins og varði örugglega 20 bolta og þar af gríðarlega mikið af dauðafærum. Það er eiginlega stóri munurinn,“ sagði Ágúst skömmu eftir leik. Hann segir jafnframt að varnarleikur Vals hafi verið öflugur en slæm færanýting gerði þeim erfitt fyrir. „Varnarleikurinn okkar, 3-2-1 vörnin, þær sáu ekki til sólar þar. Þær skora ekki í uppstilltum sóknarleik og við fáum dauðafæri eftir dauðafæri og förum rosalega illa með upplögð tækifæri.“ „Við erum að spila við gríðarlega gott lið og reynslumikið þannig þessi leikur gat dottið báðum megin. Úr því sem komið var áttu þær skilið að taka þetta,“ sagði Ágúst. Ágúst var ekki nægilega sáttur með frammistöðu leikmanna Vals í leiknum og fannst vanta meiri kraft í spilamennskuna. „Við vorum ekki að spila vel í dag en tek ekki neitt af Fram. Við vorum ekki að spila nægilega vel og fannst vanta pínu meiri orku og áreiðni. Við vorum ekki að vinna stöður, maður og maður og sérstaklega sóknarlega.“ „Vorum ekki lík sjálfum okkur en ég tek ekkert af Fram, þær spiluðu vel. Þegar þetta er gert upp eiga þær þetta skilið og við bítum í það súra epli að fara ekki í úrslitaleikinn,“ sagði þjálfarinn að endingu.