Fótbolti

Brott­hvarf Óskars „eins og þruma úr heið­skíru lofti“

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Hrafn tók við þjálfun FK Haugesund í október á síðasta ári. Hann er nú hættur störfum hjá félaginu
Óskar Hrafn tók við þjálfun FK Haugesund í október á síðasta ári. Hann er nú hættur störfum hjá félaginu Mynd: FK Haugesund

Sérfræðingur um norska boltann segir brotthvarf Óskars Hrafns Þorvaldssonar úr starfi þjálfara norska úrvalsdeildarfélagsins FK Haugesund koma „eins og þruma úr heiðskíru lofti.“

Óskar Hrafn Þorvaldsson er hættur sem þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins FK Haugesund. Frá þessu greindi félagið í yfirlýsingu nú í morgunsárið. Óskar var ráðinn þjálfari Haugesund í október á síðasta ári og stýrði hann liðinu í alls sjö leikjum. Félagið hefur nú leit að nýjum þjálfara en Óskar skilur við liðið í 13. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Jesper Mathisen, sérfræðingur TV2 um norska boltann segir fréttir morgunsins hafa komið sér mjög á óvart.

„Eins og þruma úr heiðskýru lofti,“ segir Jesper um brotthvarf Óskars Hrafns í samtali við VG. „Ég þurfti að kíkja á dagatalið og sjá hvaða dagur væri. Það er erfitt að tjá sig eitthvað mikið um þetta á meðan að við vitum ekki ástæðuna fyrir brotthvarfi Óskars. Að baki því gætu verið hundrað ástæður. En utan frá virkar þetta mjög skrýtið. 

Um þungt högg sé að ræða fyrir FK Haugesund.

„Að missa frá sér þjálfarann sem þeir höfðu mikla trú á. Manninn sem hefur verið heilinn á bakvið það sem hefur verið að gerast hjá félaginu undanfarna sex mánuði. Þetta eru óvænt tíðindi sem setja FK Haugesund í mjög erfiða stöðu.“

Leit FK Haugesund að nýjum þjálfara er nú þegar hafin en þar til að arftaki Óskars Hrafns er fundinn munu aðstoðarþjálfararnir Sancheev Manoharan, Paul André Farstad og Kamil Rylka stýra liðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×