Innlent

„Ætlaði að eiga á þessum degi“

Litla stúlkan kom í heiminn í gær þann 12.12.12. Hún hefur ekki fengið nafn en hér er hún með mömmu sinni og pabba og Sögu stóru systur.
Litla stúlkan kom í heiminn í gær þann 12.12.12. Hún hefur ekki fengið nafn en hér er hún með mömmu sinni og pabba og Sögu stóru systur. Fréttablaðið/valli
„Ég var búin að segja öllum að ég ætlaði að eiga á þessum degi en það var meira sagt í gríni en alvöru,“ segir Ásta Axelsdóttir, sem eignaðist stúlkubarn á Landspítalanum í gærmorgun, þann 12. desember eða 12.12.2012.

Að sögn Ástu bar fæðinguna brátt að. „Ég vaknaði klukkan fjögur um morguninn með verki. Þá reyndum við að hringja í tengdó, sem ætlaði að passa hina stelpuna okkar, en hún svaraði ekki. Við náðum hins vegar að vekja mömmu sem brunaði til okkar. Við vorum komin upp á spítala um sex og ég átti stelpuna tuttugu mínútum síðar,“ segir Ásta.

Ásta viðurkennir að hún hafi verið orðin stressuð þegar tengdamamman svaraði ekki símanum enda verkirnir farnir að ágerast. Spurð hvort hún hugsi tengdó ekki þegjandi þörfina fyrir að sofa fæðinguna af sér segir hún: „Jú!“ og skellir svo upp úr. „Nei, alls ekki. Þetta gekk allt svo vel og stelpan dafnar vel.“

Ásta og maður hennar, Eyþór Ívarsson, eiga fyrir Sögu en hún fæddist í júní fyrir tveimur árum.- kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×