Innlent

"Eins og að koma til útlanda“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
„Ég held að það sé hægt að fullyrða það að bæði Íslendingar og túristarnir fara dálítið eftir veðrinu,“ segir Einar Gíslason, forstöðumaður Húsavíkurstofu, en rúmlega 20 gráðu hiti hefur mælst í bænum í dag.

Einar hefur svo sannarlega orðið var við aukin ferðamannastraum í sumar, og telur hann að veðrið hafa töluvert að segja.

„Það er til dæmis óvenju mikið af Íslendingum á tjaldstæðinu. Ég lenti á tali við einn hérna í gær frá Selfossi, og hann sagði að þau væri bara að eyða sumrinu hérna fyrir norðan í staðinn fyrir rigningunni og rokinu fyrir sunnan, sem er skiljanlegt.“

Einar segir gistiheimilin ekki anna eftirspurn, svo mikill sé fjöldinn.

„Nei ekki á þessum árstíma, varðandi gistinguna allavega. Það eru öll gistiheimili og hótel hér í bænum uppbókuð, en það má alltaf fjölga eitthvað á tjaldsvæðinu.“

Háannatími stendur yfir í ferðaþjónustunni á Húsavík og hefjast hinir árlegu Mærudagar, bæjarhátíð Húsavíkur, í næstu viku. Einar segir gríðarlegan fjölda af útlendingum í bænum.

„Ég var að keyra í gegnum bæinn áðan og það er allt kröggt af útlendingum hér í bænum. Íslendingar sem koma hingað hafa það oft á orði að þetta sé eins og að koma til útlanda. Það er bara maður við mann hérna frá hafnarstétt og upp í bæ, og gríðarlegt mannlíf og ánægja hérna í bænum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×