Innlent

„Fela sig í pilsfaldi SA“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Flugmálastarfsmenn samþykktu með yfirfnæfandi meirihluta að hefja verkfallsaðgerðir í næstu viku náist ekki kjarasamningar. Flug á öllum flugvöllum landsins mun fara úr skorðum verði af verkfalli.

88 prósent flugmálastarfsmanna greiddu atkvæði með því að hefja verkfallsaðgerðir náist ekki samningar. Flugmálastarfsmenn hafa boðað til verkfallsaðgerða 8. apríl næstkomandi og munu leggja niður störf frá klukkan fjögur að morgni og stendur sú aðgerð yfir í fimm klukkustundir. Á meðan mun allt flug á landinu, bæði innanlandsflug og einnig flug til og frá Keflavíkurflugvelli, leggjast niður.

„Einhugurinn er mjög mikill og er það veganesti sem við förum með inn í þessar viðræður. Líkt og hefur komið fram áður þá höfum við óskað eftir því að það sé efnislega fjallað um okkar kröfugerð. Það hefur ekki enn verið gert,“ segir Kristján Jóhannsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins.

Uppteknir að stækkun flugstöðvar

Boðað er til allsherjarverkfalls þann 30. apríl næstkomandi. Kristján vonast hins vegar til að Isavia sjái að sér og semji við starfsmenn sína.

„Það hefur hreinlega valdið okkur fólki óánægju að Isavia, þetta fyrirtæki sem veltir milljörðum á ári og skilar hundruðum milljónum í hagnað, skuli síðan fela sig í pilsfaldinum á Samtökum atvinnulífsins og ekki einu sinni vilja ræða efnislega kröfur starfsmanna. Isavia-menn virðast vera svo uppteknir við að stækka flugstöðina vegna fjölgun farþega til landsins að þeir hafa ekkert mátt vera að því að tala við okkur.“

Aðgerðir sem bitna á almenningi

Verði af verkfalli þá gæti það haft gríðarleg áhrif á komu ferðamanna til landsins, atvinnugrein sem skilar miklum tekjum í ríkissjóð.

„Það er alltaf grautfúlt að þurfa að fara í aðgerðir sem bitna síðan á þeim sem eru ekki með neina aðkomu að þessari deilu. Við vinnum hins vegar á þessum flugvöllum og hvað annað getum við gert en að leggja niður störf. Við höfum reynt og verið fullir sátta að reyna að ná samkomulagi,“ segir Kristján Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×