Innlent

"Glerperlur og eldvatn“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framkvæmdastjórn ESB var innan lagaheimilda við að draga til baka IPA-styrki, samkvæmt gildandi reglum. Utanríkisráðherra furðaði sig á ákvörðun framkvæmda-stjórnarinnar að draga þá til baka en kallaði þessa sömu styrki glerperlur og eldvatn í þingræðu og sagði að Ísland hefði enga þörf fyrir þá. 

Viðbrögð utanríkisráðherra við þeirri ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB að fella niður IPA-styrkveitingar til Íslands hafa vakið mikla athygli og umræðu.

Í yfirýsingu sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér á þriðjudagskvöld segir m.a:

„Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur Íslendingum í opna skjöldu.“

„Utanríkisráðuneytið hefur komið óánægju íslenskra stjórnvalda með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar á framfæri og telur utanríkisráðherra að með henni bregðist ESB þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem það hefur gert samninga við.“

 „...Er þessi ákvörðun  framkvæmdastjórnarinnar mjög óheppileg.“

Fjallað hefur verið mikið í vikunni um þá staðreynd að viðbrögð ráðherrans þyki sérkennileg í ljósi þess sem hann hefur áður sagt um styrkina. T.d fjallaði Ólafur Stephensen um þetta í leiðara. Þá var þetta innblástur fyrir Halldór Baldursson skopmyndateiknara Fréttablaðsins. 

Það hefur farið minna fyrir því að spila upptökur af ummælum Gunnars Braga í heild sinni í fjölmiðlum svo áhorfendur geti kveðið upp sinn dóm. Fréttastofan lítur á það sem skyldu sína að gera það.

„Ekkkert annað en glerperlur og eldvatn“

Í þingræðu 24. janúar í fyrra sagði Gunnar Bragi: „Þeir styrkir sem um er að ræða eru vitanlega ætlaðir til þess að byggja hér upp og auka trú á að Evrópusambandið sé komið til að vera og komið til þess að laga hér allt sem hægt er að laga á þessu blessaða landi okkar. Það er ekki eðlilegt. Það getur ekki verið eðlilegt að við tökum við fjármunum frá ríki sem við erum að semja við. Við erum væntanlega að semja við þessi ríkjasambönd eða hvað á eiginlega að kalla þetta fyrirbæri. Og þau koma með peninga til okkar. Það er miklu eðlilegra að allar breytingar sem þurfa að verða ef af samningi verður komi eftir á og þá peningarnir. Þetta eru ekkert annað en glerperlur og eldvatn sem er verið að bera hérna fram."

Og í þinginu 18. júní í fyrra sagði hann: „Ég er algjörlega á móti því að Ísland þiggi þessa styrki frá Evrópusambandinu. Ég tel að Ísland eigi að vera í vegferð sinni á eigin forsendum, ekki upp á einhverja bitlinga frá Evrópusambandinu sem rekur hér harðan og ósvífinn áróður að mínu viti sem er ekki sannur og réttur og hefur til þess tæki eins og Evrópustofu."

Textinn talar sínu máli. Utanríkisráðherrann var harður andstæðingur þess að IPA-styrkirnir yrðu greiddir, en íslenskar stofnanir fara á mis við milljarða króna vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar. 

Beitti ráðherra sér fyrir því að IPA-styrkir yrðu greiddir þrátt fyrir slit viðræðna? 



Fyrir helgi sendi fréttastofan eftirfarandi fyrirspurn á Urði Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins og Margréti Gísladóttur, aðstoðarmann Gunnars Braga: 

Fyrirspurn frá Stöð 2 vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB að draga til baka IPA-styrki og yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins frá sl. þriðjudagskvöldi:

Var einhvern tímann sent bréf til framkvæmdastjórnarinnar vegna IPA-styrkjanna? 

Eða færði utanríkisráðherra það einhvern tímann í tal við fulltrúa ESB að biðja um að þessum IPA-verkefnum yrði haldið áfram? 

Ekki hefur borist svar við fyrirspurninni. 

Umræða hefur skapast um hvort framkvæmdastjórn ESB hafi verið heimilt að draga styrkina til baka. Samkvæmt reglugerð um IPA-styrkina hafði ESB slíka heimild. Styrkirnir afmarkast við ríki í aðildarviðræðum/aðlögunarviðræðum en Ísland er ekki lengur í virkum aðildarviðræðum við sambandið. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók síðan þá ákvörðun að leysa samningahópana upp. Báðar þessar ákvarðanir, að hætta viðræðum og leysa samningahópa upp, voru teknar án samþykkis þingsins.

Samkvæmt reglugerð um IPA-styrkina ber framkvæmdastjórninni að gæta fjárhagslegra hagsmuna sambandsins til hins ítrasta og IPA-styrkirnir eru aðeins í boði fyrir ríki í aðildarviðræðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×