Innlent

"Gríðarleg eftirsjá að Jóni úr borgarpólitíkinni“

Boði Logason skrifar
Dagur B. Eggertsson og Jón Gnarr í Breiðholti þegar þeir tilkynntu um samstarf flokkanna vorið 2010.
Dagur B. Eggertsson og Jón Gnarr í Breiðholti þegar þeir tilkynntu um samstarf flokkanna vorið 2010. mynd/valli
„Það verður gríðarleg eftirsjá að Jóni úr borgarpólitíkinni,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Jón Gnarr Borgarstjóri tilkynnti í morgun að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur sem borgarstjóri í Reykjavík.

„Þetta hefur verið frábært samstarf, og að mörgu leyti einstakt. Það hefur verið byggt á hreinskilni, hreinskiptni, samræðu og samstöðu,“ segir hann.

Þá segir hann að honum finnist leiðinlegt að eiga ekki kost á að starfa frekar með Jóni á næsta kjörtímabili.

„Já mér finnst það, ég neita því ekki. Ég hefði helst viljað það. Eftir að hafa rætt þetta mjög oft og mikið við Jón, og að hans djúpa sannfæring sé sú að þetta sé rétt - þá verður maður bara að virða það.“

„Við erum ekki búnir, við eigum eftir að vinna saman fram á vor og ætlum að skila af okkur eins góðu búi og nokkur kostur er,“ segir Dagur B. að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×