Innlent

„Held ég sé með Íslandsmetið í innkeyrslu í verslanir“

Gunnar Valþórsson og Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ofnakerfi hússins rifnaði í sundur við áreksturinn og flæddi heitt vatn því um allt.
Ofnakerfi hússins rifnaði í sundur við áreksturinn og flæddi heitt vatn því um allt. mynd/gva
Innbrot var framið í verslunina Tölvuvirkni í Holtasmára í Kópavogi um klukkan fimm í morgun. Þjófarnir bökkuðu bíl hreinlega inn í verslunina og brutu við það gluggann. Að sögn lögreglu er ekki vitað hverjir þarna voru að verki en málið er í rannsókn.

Björgvin Þór Hólm, rekstrarstjóri verslunarinnar, segir í samtali við Vísi að um mikið tjón sé að ræða, en ofnakerfi hússins rifnaði í sundur við áreksturinn og flæddi heitt vatn því um allt.

„Þetta var eins og eftir sprengjuárás þegar við mættum í morgun. Þeir stálu fyrir sirka milljón, vatnsskemmdirnar á vörum eru fyrir um tvær, og svo um tvær til þrjár á húsinu sjálfu.“ Þá segir Björgvin að einnig hafi orðið vatnsskemmdir á búðinni Tvö líf sem er í sama húsi.

Þá var slökkviliðið kallað út til þess að hreinsa upp eftir flóðið og segist Björgvin þakklátur fyrir það. Bílnum sem var bakkað inn í verslunina er talinn vera af gerðinni Cherokee en brak úr bílnum lá á víð og dreif um bílastæðið þegar starfsmenn Tölvuvirkni bar að garði. Einnig hafði töluvert magn þýfis hrunið úr bílnum þegar honum var keyrt í burtu.

Björgvin Þór Hólm, rekstrarstjóri verslunarinnar, segir í samtali við Vísi að um mikið tjón sé að ræða.mynd/stöð 2
Rifu öryggismyndavélar úr sambandi

„Vettvangurinn var svolítið skemmtilegur. Hluti af bílnum varð eftir í Tölvuvirkni,“ segir Björgvin og hafa vitni staðfest að um Cherokee-jeppa hafi verið að ræða. „En þeir höfðu fyrir því að rífa öryggismyndavélarnar úr sambandi.“

Björgvin biður fólk um að hafa augun hjá sér bjóðist því tölvubúnaður til sölu á óeðlilega lágu verði. „Sá sem kaupir þýfið er hinn raunverulegi þjófur. Hann er vinnuveitandinn.“

Atvikið í morgun er ekki í fyrsta skipti sem ekið er inn í verslunina að sögn Björgvins. „Þegar við vorum í Hlíðarsmáranum var líka keyrt inn í búðina. Ég held ég sé örugglega með Íslandsmetið í innkeyrslu í verslanir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×