Innlent

"Herraklippingar" aldrei vinsælli

Erla Hlynsdóttir skrifar
Aldrei hafa fleiri karlmenn farið í ófrjósemisaðgerð og á síðasta ári, þegar einn karlmaður að meðaltali fór í aðgerð á hverjum einasta degi.

Borgarstjóri vakti máls á ófrjósemisaðgerðum í ræðu sinni um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á þriðjudag, og hvatti karla til að taka þar aukna ábyrgð.

Talsverð aukning hefur orðið á ófrjósemisaðgerðum hjá körlum á síðustu árum og hafa aldrei fleiri karlmenn farið í svonefnda herraklippingu en á síðasta ári, þegar þeir voru ríflega fjögurhundruð. Á sama tíma fóru aðeins um hundraðogsextíu konur í ófrjósemisaðgerð.

Undanfarinn áratug hefur orðið algjör viðsnúningur hjá kynjunum þegar kemur að ófrjósemisaðgerðum. Konur voru alltaf í miklum meirihluta en nú hafa karlmenn tekið yfir, enda aðgerðin mun einfaldari hjá þeim.

„Það eru náttúrulega að koma fleiri karlmenn og þeir kannski frétta það hjá hverjum öðrum að þetta sé tiltölulega einfalt mál," segir Guðmundur Geirsson þvagfæraskurðlæknir.

Og karlmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að aðgerðin bitni á kynlífnu. „Nei, það hefur engar aukaverkanir hvað varðar kynlíf," segir Guðmundur og bætir við að sáðlát verði áfram eins eftir aðgerð, nema að sáðfrumurnar vantar.

Algengast er að fólk í aldurshópnum þrjátíuogfimm til fjörutíuogfjögurra ára fari í ófrjósemisaðgerðir og „herraklippingin" er mun einfaldari en margan kann að gruna.

Í flestum tilfellum þarf aðeins að staðdeyfa karlmenn áður en þeir fara í ófrjósemisaðgerð, þó sumir séu svæfðir. Aðgerðin fer þannig fram að gat eða lítill skurður er gerður á ofanverðan punginn. Þá eru sáðrásirnar teknar út, þær eru klipptar og svo bundið eða jafnvel brennt fyrir.

Aðgerðin tekur um fimmtán til tuttugu mínútur og eru menn vinnufærir strax næsta dag.



Í meðfylgjandi myndskeiði
má sjá myndir af ófrjósemisaðgerð á karlmanni. Við vörum viðkvæma við þessum myndum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×