Innlent

"Hvenær eigum við að hætta að hylja konur?“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
mynd/skjáskot af vef akureyri vikublaðs
Guðjón Ólafsson, formaður Flugmódelfélags Akureyrar, ætlar ekki að taka niður auglýsingaskilti félagsins sem vegfarandi kvartaði undan og sagði klámfengið. Vegfarandinn kvartaði til sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar sem hafði samband við Guðjón.

„Ef vegfarandinn hefði sjálfur talað við mig beint hefði ég breytt skiltinu en ég tek það ekki í mál þar sem viðkomandi talaði ekki beint við mig heldur kvartaði til sveitarstjóra og svo til fjölmiðla,“ segir Guðjón í samtali við Akureyri vikublað, en samtals eru skiltin þrjú og standa á Akureyri og við Hrafnagil.

„Við erum ekki að reyna að móðga neinn en sá sem bjó skiltin til fannst þetta flottar myndir og notaði þær, ég get lofað því að það verður ekki mynd af konu í bikiní á næsta skilti, hugsanlega þó konu í búrku. Mér finnst þetta ekki vera klám og ég bara spyr hvenær eigum við að stoppa þetta? Hvenær eigum við að hætta að hylja konur, eigum við að klæða þær í svarta plastpoka svo sjáist ekkert nema augun, ég bara spyr,“ segir Guðjón, en að hans sögn voru skiltin gerð fyrir 6-8 árum, eru orðin léleg, og verða ekki notuð aftur á næsta ári.

Jónas Sigfússon, sveitarstjóri Eyjarfjarðarsveitar, hefur staðfest að kvörtun hafi borist en segir að ekki verði aðhafst frekar í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×