Skoðun

„Í guðanna bænum gerið það ekki“

Hrafn Magnússon skrifar
Enn á ný er komið fram frumvarp á Alþingi um að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum. Verði frumvarpið að lögum verður hægt að kaupa léttvín og bjór í verslunum frá og með næstu áramótum frá klukkan níu að morgni til miðnættis.

Þetta frumvarp er lagt fram þó vitað sé að meirihluti landsmanna hefur í mörgum skoðanakönnunum lýst sig andsnúinn því að hægt sé að kaupa áfengi í matvöruverslunum.

Skoðun landlæknis og umboðsmanns barna

Birgir Jakobsson landlæknir hefur sagt í fjölmiðlum nýlega að fyrirhugað frumvarp sé algjörlega í andstöðu við lýðheilsustefnu fyrrverandi ríkisstjórnar. Landlæknir segir orðrétt: „Raunverulega er það í andstöðu við það sem alþjóðasamtök segja; að hafi maður ekki sleppt þessu frjálsu í guðanna bænum gerið það ekki. Þetta skref verður aldrei tekið til baka og er óheillaspor.“

Þegar viðlíka frumvarp var til umræðu á Alþingi á síðasta vetri kom fram í umsögn umboðsmanns barna, Margrétar Maríu Sigurðardóttur, að fjölmargar rannsóknir hafi sýnt að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu í samfélaginu og skapi verulegar neikvæðar afleiðingar fyrir börn, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt.

Viðtal við forstjóra Haga

Þó fjöldinn allur af fagaðilum, einkum á sviði heilbrigðismála, hafi stigið fram og varað við þeim skaðlegu áhrifum sem aukið aðgengi áfengis í matvöruverslunum hafi í för með sér er þó einn aðili sem fagnar frumvarpinu sérstaklega. Hann heitir Finnur Árnason og er forstjóri Haga, sem m.a. rekur Bónus og verslanir Hagkaups.

Í löngu blaðaviðtali við forstjórann lýsir hann því yfir að það sé tímaskekkja að heimila ekki sölu áfengis í matvöruverslunum. Hagar séu nú „að byggja upp í rólegheitum“ að koma áfengistegundum Haga í sölu í vínbúðum. Nú þegar sé fyrirtækið komið með 50 tegundir í sölu sem verði 65 talsins innan skamms. Finnur Árnason fagnar sérstaklega að líkurnar á að opna fyrir sölu áfengis í matvöruverslunum hafi aukist með nýrri ríkisstjórn og „að yngri þingmenn átti sig á því að þetta er úrlausnarverkefni sem þarf að leysa“.

Við lestur þessa viðtals við Finn Árnason, forstjóra Haga, kemur skýrt fram að hann óskar þess heitast að umrætt frumvarp verði samþykkt á Alþingi og að hægt verði að kaupa áfengi í Bónus og verslunum Hagkaups eins fljótt og verða má.

Nú er það svo að Hagar eru almenningshlutafélag sem skráð er á markaði í Kauphöll Íslands. Meðal tíu stærstu hluthafanna eru sjö lífeyrissjóðir. Það má því eiginlega segja að þjóðin eigi Haga. Sú sama þjóð sem að meirihluta er á móti auknu aðgengi á áfengi í matvöruverslunum.

Hver er skoðun stjórnar Haga?

Í umræddu viðtali talar Finnur bersýnilega sem forstjóri Haga. Hann er því ekki að reifa sínar einkaskoðanir heldur hlýtur hann að tala í umboði stjórnar Haga. Eða hvað? Ekkert hefur heyrst í stjórn Haga og engar athugasemdir borist um það að hún sé ósammála forstjóranum.

Hvernig væri að fjölmiðlamenn leituðu álits stjórnar Haga hvort hún sé sammála forstjóranum um sölu léttvíns og bjórs í verslunum fyrirtækisins, þrátt fyrir aðvaranir heilbrigðisstétta með landlækni í forystu? Stjórn Haga getur ekki borið fyrir sig að það sé ekki á verksviði hennar að ákveða einstaka vöruflokka í verslunum fyrirtækisins. Málið er langtum stærra og alvarlega en það. Stjórnin hlýtur að hafa skoðun á þessu stórmáli. Hún getur ekki látið forstjórann spila einleik.

Í guðanna bænum gerið það ekki

Haft er eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, að sala áfengis í matvöruverslunum sé ekki spurning um frelsi, ríkisrekstur eða ekki ríkisrekstur. Málið snúist aftur á móti um að koma í veg fyrir eitt versta heilsufarsvandamál ungs fólks sem er alkóhólismi og að koma í veg fyrir að freisting sé fyrir allra augum í matvöruverslunum.

Færa má fullgild rök fyrir því að örorkulífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna muni aukast ef þetta áfengisfrumvarp nær fram að ganga. Með aukinni örorku minnkar að sama skapi geta lífeyrissjóðanna til eftirlaunagreiðslna. Það er því dapurlegt ef stjórn Haga með forstjórann í fararbroddi ætlar að berjast fyrir afgreiðslu þessa áfengisfrumvarps.

Í guðanna bænum gerið það ekki.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×