Innlent

„Nú fer lyftan niður“

Ásmundur Einar og Lilja.
Ásmundur Einar og Lilja. Mynd/GVA
Þingflokksfundi Vinstri grænna lauk á tíunda tímanum í kvöld. Árni Þór Sigurðsson, starfandi formaður þingflokksins, sagði að loknum fundinum í samtali við fréttastofu RÚV að þremenningarnir sem kröfðust afsökunarbeiðni frá honum í gær ekki hafa lagt fram slíka beiðni á fundinum. Vísir hefur reynt að ná tali af Árna Þór og öðrum þingmönnum VG í kvöld, en án árangurs.

Á þingflokksfundi á miðvikudaginn í síðustu viku lögðu Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, þau hin sömu og sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga, fram greinargerð þar sem þau svöruðu Árna Þór, en hann sakaði þau um að reyna að þvinga ríkisstjórnina til að skipta um stefnu í greinargerð sem hann lagði fyrir þingflokkinn tveimur dögum fyrir jól. Þau fóru auk þess fram opinbera afsökunarbeiðni að hálfu Árna Þórs.

Þingflokkurinn kom saman á nýjan leik í dag. Fundi var frestað síðdegis og hófst aftur um klukkan 18. „Ég hef ekki verið beðinn um það og ég hef ekkert heyrt um það," sagði Árni Þór í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins spurður hvort farið hafi verið fram á afsökunarbeiðni á fundinum.

Í fréttum RÚV var einnig rætt við Ásmund Einar og Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra. Aðspurður hvort hann hefði óskað eftir því að Árni Þór bæðist afsökunar sagði Ásmundur Einar: „Nú fer lyftan niður. Hún fór upp fyrr í dag." Spurður nánar út í þau orð svaraði þingmaðurinn: „Það þýðir að hún er búin að fara upp og fer núna niður."

Þegar Ásmundur var spurður hvort þremenningarnir væru enn hluti af þingflokki VG greip Ögmundur orðið og furðaði sig á því að fréttamenn hefðu einungis áhuga á þessu tiltekna máli. Hann benti ennfremur á að þingfundinum hefðu þingmenn VG rætt um málefni á borð við Evrópusambandið og fiskveiðistjórnunarkerfið.


Tengdar fréttir

Steingrímur: Engin krafa um afsökunarbeiðni

Enn eru harðar deilur í þingflokki Vinstri grænna en þremenningarnir sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga saka meirihlutann á Alþingi um ofríki. Þá krefja þeir starfandi formann þingflokks Vinstri grænna um opinbera afsökunarbeiðni.

Þingmenn VG funda um ágreining

Þingflokkur Vinstri grænna kemur saman á nýjan leik klukkan 18 eftir að hlé var gert á fundi þingflokksins síðdegis. Þremenningarnir sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga gagnrýna það sem þeir kalla ofríki meirihlutans á Alþingi. Þingflokkurinn reynir nú að jafna ágreining milli ólíkra fylkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×