Innlent

„Á að refsa öðrum fyrir það að ég hafi fæðst karlkyns?“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
mynd úr safni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir skrýtið að fylgjast með umræðunni um jafnréttismál eftir að ný ríkisstjórn tók við störfum.

„Það er markvisst og viljandi verið að snúa úr nokkrum hlutum. Ég lagði til skipun þriggja ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins fjögurra. Hann lagði til tvo karla og tvær konur en ég tvo karla og eina konu,“ sagði Sigmundur í útvarpsþættinum Sprengisandi rétt fyrir hádegi á Bylgjunni.

Sigmundur sagði úr mörgum öflugum konum í þingflokknum að velja en þegar sætin væru ekki fleiri gæti hlutfallið sveiflast til beggja átta. „Ef maður er með oddatölu getur það ekki verið jafnara.“

Sigurjón M. Egilsson þáttastjórnandi minnti ráðherra þá á að hann hefði ekki talið sjálfan sig með í ráðherrahópnum.

„Þá er spurningin sú: Á að refsa öðrum fyrir það að ég hafi fæðst karlkyns? Ef menn eru þeirra skoðunar finnst mér að það eigi að benda á það hverjum þeirra ráðherra sem þingflokkurinn kaus ætti að skipta út og hverjum ætti að skipta inn í staðinn.“

Sigurjón spurði Sigmund út í mögulegan fimmta ráðherra Framsóknarflokksins þegar fram í sækir, og þá hvernig hann yrði valinn og jafnvel hvort það yrði Vigdís Hauksdóttir.

„Þessu mun þingflokkurinn stýra þegar að því kemur, en Vigdís er mjög öflugur þingmaður eins og flestir hafa tekið eftir.“

Viðtalið við Sigmund má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Vill skoða allar hugmyndir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það besta úr fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar verði notað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×