Innlent

„Víktu burt, drullusokkur!“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Gunnlaugur M. Sigmundsson (t.v.) og Teitur Atlason
Gunnlaugur M. Sigmundsson (t.v.) og Teitur Atlason
Gunnlaugur M. Sigmundsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, er sagður hafa veist með fúkyrðaflaumi að Teiti Atlasyni, bloggara og frambjóðanda Samfylkingarinnar til Alþingiskosninga, á fundi Samtaka atvinnulífsins í Hörpu í morgun.

„Já þetta passar,“ segir Teitur í samtali við fréttastofu Vísis, en Teitur var að eigin sögn að dreifa bæklingum fyrir Samfylkinguna á ganginum þegar allt fór í bál og brand.

„Hann kom þarna aðvífandi að mér, fjandvinur minn, og jós yfir mig fúkyrðum. Ég svaraði því nú ekki en tjáði honum að okkar máli væri lokið, og hefði lokið í Héraðsdómi Reykjavíkur.“

Vísar Teitur þar til þess þegar Gunnlaugur stefndi Teiti vegna bloggfærslu um Kögunarmálið svokallaða, en Gunnlaugur var forstjóri fyrirtækisins. Teitur var sýknaður af annarri kröfunni og hinni var vísað frá.

„Steininn tók síðan úr þegar hann kallaði á mig yfir fundarmenn: „Víktu burt, drullusokkur,“ en þetta kallaði hann yfir hóp af fólki. Kona í hópnum tók þetta til sín og spurði hvort hann væri að tala til sín og Gunnlaugur neitaði því og sagðist vera að beina orðum sínum annað. Þá varð konan reið og sagði honum að hann gæti sjálfur verið drullusokkur. Hún sem sagt brást til varnar fyrir mig og það þótti mér vænt um. Mér finnst samt að Gunnlaugur ætti ekki að vera að tala mikið við mig. Mér finnst að hann ætti að tala við sálfræðing.“

Ekki náðist í Gunnlaug M. Sigmundsson við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×