Innlent

„Það er búið að eyðileggja nóg hérna“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grasbrekkan undir Löngu sem Hulda vill halda ósnertu á meðan Árni sér fyrir sér strönd á pari við Mallorca á góðviðrisdögum.
Grasbrekkan undir Löngu sem Hulda vill halda ósnertu á meðan Árni sér fyrir sér strönd á pari við Mallorca á góðviðrisdögum. Mynd/Hulda Sig
„Þeir fara sko ekki í þetta. Það er alveg á hreinu,“ segir Hulda Vatnsdal, Eyjakona í húð og hár, um áætlanir Árna Johnsen að grafa göng til að opna fyrir aðgengi fólks undir Löngu í Vestmannaeyjum. Hún segir ekki koma til greina að eyðileggja bergið eða svæðið stórkostlega að nokkru leyti. Auk þess sé mikil slysahætta undir Löngu og dæmið sé augljóslega ekki hugsað til enda.

Árni lagði erindi þess efnis að grafa fjögurra metra há og jafnbreið göngugöng fyrir Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja á mánudaginn og fékk þau svör að ráðið væri sammála því að bæta eigi aðgengi á svæðið. Árni segist vera í forsvari fyrir hóp en aðspurður hve fjölmennur hópurinn sé segir hann einfaldlega að um hóp sé að ræða.

„Langan í Vestmannaeyjahöfn er stórkostlegt útivistarsvæði,“ sagði Árni í samtali við Vísi í morgun. Þar hafi á árum áður verið baðströnd og sandbrekka en þar sé nú grasbrekka. Á góðum dögum sé Langan á við tvöfalda Mallorca.

Hulda segir Árna geta búið til einhver göng heima hjá sér. „Hann er með þetta á heilanum.“

Bergmyndanir í móberginu eru mjög fallegar að sögn Huldu.Mynd/Hulda Sig
Sammála en samt mjög ósammála

Árni og Hulda eru greinilega á sama máli að svæðið undir Löngu sé stórkostlegt. Líklega deila fáir Eyjapeyjar við þau um það. Skoðun þeirra á því hvað eigi að gera með svæðið er þó gjörólíkur.

„Þetta svæði er alveg stórkostlegt en við viljum ekki átroðning og eyðileggingu,“ segir Hulda sem hefur tekið afar fallegar myndir af svæðinu og sömuleiðis fallegum bergmyndunum í móbergsstapanum.

„Bergmyndanirnar eru stórkostlegar. Við viljum ekki láta eyðileggja þetta,“ segir Hulda. Hvort meirihluti bæjarbúa deili skoðunum sinnar eða Árna telur hún fleiri hljóta að vera á móti gangnagerð. Hins vegar sjái vafalítið einhverjir tækifæri í þessu til að græða peninga af túristum og skoðun þeirra stjórnist af því.

Heimaklettur. Langan er á þeirri hlið sem snýr frá eyjunni fögru.Mynd/Daníel Steingrímsson
Hefur ekki verið hugsað til enda

Hulda útskýrir að í dag fari mjög fáir undir Löngu. Það sé helst að einstaka maður klifri eða fari á gúmmíbát.

„Þetta er algjörlega ósnert og þannig viljum við hafa þetta. Það er búið að eyðileggja nóg hérna,“ segir Hulda og vandar Umhverfis- og skipulagsráði ekki kveðjurnar.

„Þeir víla ekkert fyrir sér. Það er vaðið í allt og eyðilagt. Við erum ekki á stórri eyju. Það má ekki miklu raska.“

Að sögn Huldu varð hrun úr Heimakletti í desember. Stór rák sé niður úr Heimakletti og niður allan klettinn. Grjótið hafi líklega farið niður í löngu.

„Þetta er rosaleg slysahætta útaf hruni. Þetta hefur ekki verið hugsað til enda.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×