Innlent

"Það voru fleiri lögreglumenn en mótmælendur“

Boði Logason skrifar
„Það voru fleiri lögreglumenn en mótmælendur,“ segir Gísli Garðarsson, talsmaður Ungra Vinstri Grænna í utanríkismálum, sem stóð fyrir mótmælum fyrir utan Norræna húsið í morgun vegna fyrirlesturs formanns hermálanefndar NATÓ.

Knud Bartels, hershöfðingi og formaður hermálanefndar NATÓ, hélt fyrirlestur í Norræna húsinu í morgun til að ræða stöðu bandalagsins eftir Kalda stríðið. Ung Vinstri Græn efndu til mótmæla af þessu tilefni.

Gísli segir að um tuttugu manns hafi mætt á svæðið til að mótmæla.

„Við vorum að mótmæla bæði NATÓ og aðild Íslands að bandalaginu, auk þess að NATÓ fengi að nota Norræna húsið til að  flytja sinn stríðsáróður. Við vorum með skilti og létum vel í okkur heyra, sérstaklega þegar Knud kom,“ segir hann.

Og hvernig brást hann við?

„Hann bauð okkur að koma inn og ræða málin, við þáðum ekki það boð enda algjörlega tilgangslaust að ræða við þessa menn.“

Gísli segir að það sé skýlaus krafa samtakanna að Ísland segi sig úr Nató.

„Við teljum að NATÓ sé herskátt árásarbandalag, sem fer inn í fjarlæg lönd og sinni þar hernaðarstarfsemi, en ekki varnarstarfsemi eins og yfirskriftin er.“

Hann segir að mótmælin í morgun hafi farið friðsamlega fram.

„Viðbúnaður lögreglunnar var töluvert meiri en við bjuggumst við, það voru held ég fleiri lögreglumenn en mótmælendur.“

Afhverju heldur þú að það sé?

„Ég held að það sé vegna þess að í NATÓ eru margir hræddir litlir karlar,“ segir Gísli að lokum.

Nánar verður fjallað um mótmælin í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×