Innlent

„Þeir telja sig í raun eiga makrílstofninn“

Tómas H. Heiðar, formaður íslensku samninganefndarinnar, segir tillögu Noregs og Evrópusambandsins hafa valdið miklum vonbrigðum.
Tómas H. Heiðar, formaður íslensku samninganefndarinnar, segir tillögu Noregs og Evrópusambandsins hafa valdið miklum vonbrigðum.

„Sú ósanngjarna afstaða Noregs og Evrópusambandsins, sem endurspeglast í fáránlegri tillögu þeirra um 3,1 prósents hlutdeild Íslands í makrílveiðunum á næsta ári, veldur okkur miklum vonbrigðum. Tillagan er algjörlega óraunhæf og ekki til þess fallin að stuðla að lausn málsins," segir Tómas H. Heiðar, formaður samninganefndar Íslands. Viðræður strandríkjanna fjögurra, Íslands, ESB, Færeyja og Noregs, hófust í London á þriðjudag en þeim lauk síðdegis í gær.

Tilboðið er runnið undan rifjum Norðmanna, en er stutt af ESB. Það þýðir að kvótinn færi úr 130 þúsund tonnum niður í 26 þúsund tonn en veiðar Íslendinga í ár voru 17 prósent af veiðistofni.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra sagði á aðalfundi LÍÚ í gær að tilboðið væri fráleitt.

Tómas segir að tillaga ESB og Noregs bendi „eindregið til þess að þessir aðilar telji sig í raun eiga makrílstofninn einir og séu þess umkomnir að skammta Íslendingum og Færeyingum smávægilega kvóta".

Tómas segir að það hafi tekið mörg ár fyrir Norðmenn og ESB að viðurkenna stöðu Íslands sem strandríkis og sennilega þurfi þeir að fá svigrúm til að venjast breyttu útbreiðslu- og göngumynstri makrílsins. Í því ljósi sé ef til vill óraunhæft að ætla að sömu aðilar verði fljótir til að viðurkenna sanngjarna hlutdeild Íslands í makrílstofninum.

Ákveðið var að halda viðræðunum áfram í London dagana 8.-12. nóvember.- shá









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×