Innlent

"Þeir vissu betur"

Karen Kjartansdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins, segir fráfarandi ríkisstjórn hafa beitt blekkingum þegar kom að fjárhagsstöðu ríkisins. Tekjur ríkissjóðs verði minni en gefið hafi verið í skyn og kostnaður við verkefni sem á að fara í meiri.

Grunnvinnu í ríkisstjórnarviðræðunum er lokið að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Ekkert liggi enn fyrir um skiptingu ráðuneytanna á milli flokka en rætt hafi verið um að skipta upp atvinnuvega- og velferðarráðuneytinu. Ekki hafi þó enn verið tekin ákvörðun um útfærsluna.

Sigmundur segir segir fráfarandi ríkisstjórn hafa beitt blekkingum þegar kom að fjárhagsstöðu ríkisins og það kalli á endurskoðun. Tekjur ríkissjóðs verði minni en gefið hafi verið í skyn og kostnaður við verkefni sem á að fara í meiri.

„Bæði útlitið hvað varðar væntanlegar tekjur ríkisins og kostnaðarhliðina, það er að segja útgjöldin. Ef að ráðist verður í öll þau verkefni sem ýmist er búið að taka ákvörðun um að fara í eða gefa fyrirheit að ráðist verði í þá verður staðan allt önnur heldur en gefið hefur verið í skyn, svo allt krefst þetta endurskoðunnar. Þetta er samt fyrst og fremst áminning um mikilvægi þess að fara skapa meiri verðmæti og búa til þær aðstæður sem skapa meiri verðmæti."

En lá þetta ekki ljóst fyrir til dæmis í Hagtíðinum sem Hagstofa Íslands gaf út í apríl?

„Eitthvað af þessu höfum við auðvitað séð og við höfum verið að benda á, til dæmis að fjárlögin 2013 myndu ekki ganga eftir svo ég nefni eitt dæmi. Þegar væri búið að benda á útgjaldaliði sem hefði bara verið litið framhjá.

Hvað ertu að tala um háar upphæðir sem standast ekki þessar áætlanir sem þið gerðuð?

Það fer eftir því að hvað maður tekur margt í reikninginn en þegar allt er talið þá nemur þetta tugum milljarða."

Skil ég þig rétt, ertu að segja að fráfarandi ríkisstjórn hafi beitt blekkingum í aðdraganda kosninga?

„Ég hef nú til dæmis verið afdráttarlaus með það að fjárlögin hafi falið í sér blekkingar og að tala út frá þeim eins og þau væru staðreynd og hér væri hallalaus ríkisrekstur á þessu ári var eitthvað sem menn hefðu ekki átt að gera vegna þess að þeir vissu betur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×