Innlent

"Þetta á maður aldrei eftir að sjá aftur“

Breki Logason skrifar
„Þetta er eitthvað sem ég held að maður eigi aldrei eftir að sjá aftur," segir skipverji á Arnari SH 157 sem fékk risa hnúfubak í veiðafærin fyrir helgi. Hvalurinn tók með sér helminginn af veiðafærunum en strákarnir á bátnum segja þetta hafa verið mikið ævintýri.

Þetta myndband tók Hjálmar Ingi Magnússon í vikunni en hann var þar ásamt félögum sínum að draga inn þriggja daga skötuselsnet á Breiðafirði þegar hnúfubakurinn kom í ljós. Skipstjórinn á Haukaberginu hafði reyndar séð hann vera að dóla í kringum færin, og því hefur hann líklega fest sig fljótlega eftir að netin voru lögð.

„Yfirleitt fær maður ekki stórhveli í net því venjulega rífa þau sig laus bara laus," segir Hjálmar.

Hjálmar segir dýrið líklega hafa verið 10-13 metra langt en til samanburðar er Arnar, sem er þrjátíu tonna plastbátur, ekki nema fimmtán metra langur.

Hjálmar segir aldrei neina hættu hafa skapast en menn hafi litið á þetta sem mikið ævintýri. Hann hafi þó ollið töluverðu tjóni á veiðafærum. Ætlunin hafi alltaf verið að losa hvalinn, en að lokum hafi hann séð um það sjálfur. Þeim aðgerðum lýsir Hjálmar á þessa leið.

„Þá snýr hann sér tvisvar þrisvar og slítur allt saman. Höggið var svo mikið. Hann maskar sko, brýtur rótorinn í netaspilinu sem er inni á miðjum bát og beygir svo járnrúlluna sem sést á myndbandinu. Þetta var ótrúlegt. Þetta var eitthvað sem ég held maður eigi aldrei eftir að sjá aftur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×