Innlent

„Til hamingju með daginn ríkisstjórn“

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir.

Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, segir að öll ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er komin upp varðandi stjórnlagaþingið hvíli hjá ríkisstjórninni og sérstaklega hjá „barnsmóður" stjórnlagaþingsins, Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Hún sagði að sér stæði ekki á sama þegar hún hlustaði á Jóhönnu og Ögmund Jónasson, efast um úrskurð Hæstaréttar og benti hún á að kosningalög hafi verið brotin, og að kosningarétturinn sé varinn í stjórnarskrá og í mannréttindalögum. Þá sagði hún að sér fyndist með ólíkindum að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa gripið í taumanna um leið og kærur komu fram varðandi framkvæmd kosninganna. Þess í stað hafi menn haldið ótrauðir áfram með skipulagningu stjórnlagaþingsins með tilheyrandi kostnaði.

Hún segir að ríkisstjórnin hafi keyrt málið áfram, og nú sé komið á daginn að kosningarnar hafi verið ólöglegar. Þetta sagði hún ríma við svar Jóhönnu Sigurðardóttur við fyrirspurn sinni á sínum tíma. Vigdís segir að þá hafi Jóhanna komið „hálf flissandi" í ræðustól og sagt að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af kærunum í ljósi þess að landskjörstjórn væri með málið til umfjöllunar.

„Það mistekst allt sem ríkisstjórnin kemur nálægt," sagði Vigdís ennfremur og vísaði ábyrgðinni á málinu til forsætisráðherra. Hún benti ennfremur á að öll kurl væru ekki komin til grafar og sagði möguleika fyrir hendi á því að kjörnir þingmenn á stjórnlagaþing gætu farið í skaðabótamál.

„Til hamingju með daginn ríkisstjórn," bætti Vigdís við og sagðist ennfremur þakklát fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins og þeirri staðreynd að fjölskipaður Hæstaréttur lúti ekki valdi ríkisstjórnarinnar.

„Ég lýsi ábygð þessaraar niðurstöðu beint heim til föðurhúsanna, beint heim til barnsmóður þessa stjórnlagaþings."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×