Innlent

„Tilfinningalegt tjón“ - myndband úr eftirlitsmyndavél Lindu

Erla Hlynsdóttir skrifar

Brotist var inn á skrifstofu Lindu Pétursdóttur á líkamsræktarstöðinni Baðhúsinu í morgun. Einkatölvu hennar var stolið og þar með fjölskyldumyndum síðustu fimm ára. Linda hafði tekið afrit af myndunum en þeim var einnig stolið.

„Þeir tóku tölvuna mína með öllum mínum persónulegu myndum. Þeir tóku líka peninga og rústuðu skrifstofunni minni. En það náðust myndir af þeim í öryggismyndavél. Þeir sjást þar ágætlega," segir Linda.

Henni segist nokk sama um peningana en þykir sárt að sjá eftir myndunum. „Ef þeir lesa þetta þá mega þeir eiga tölvuna. Ég vil bara fá myndirnar mínar aftur," segir hún.

Á tölvudiskunum var stór hluti þeirra mynda sem Linda á af dóttur sinni og svíður hana mjög að þær séu mögulega glataðar. „Tilfinningatjónið er það versta," segir hún.

Þjófarnir voru enn í Baðhúsinu klukkan sex í morgun þegar fyrsti starfsmaðurinn mætti til vinnu. Sá starfsmaður var stúlka sem komin er átta mánuði á leið og brá henni mjög við að heyra í innbrotsþjófunum. Þegar þeir urðu starfsstúlkunnar varir flúðu þeir út um glugga á skrifstofu Lindu.

„Mér finnst hræðilegt að vita til þess að þeir hafi enn verið hér þegar hún mætti. Hún er sem betur fer heil á húfi. Það er fyrir öllu," segir Linda.

Hún bindur vonir við að öryggismyndavélarniar skipti sköpum í leitinni að þjófunum. Þeim sem hafa upplýsingar um málið er bent á að hafa samband við lögreglu í síma 4441000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×