Innlent

"Trúi varla að hann sé að koma“

Brjánn Jónasson skrifar
Þóra Björg segir börnin yfir sig spennt 
Fréttablaðið/Vilhelm
Þóra Björg segir börnin yfir sig spennt Fréttablaðið/Vilhelm
Davíð Örn Bjarnason er laus úr farbanni í Tyrklandi og er væntanlegur heim á næstu dögum. Hann var handtekinn fyrir tæpum þremur vikum í Antalya í Tyrklandi sakaður um að hafa ætlað að smygla fornmun úr landi.

„Ég trúi því varla að hann sé að koma heim," segir Þóra Björg Birgisdóttir, sambýliskona Davíðs. „Krakkarnir eru ótrúlega spenntir að hitta hann, þau eru búin að bíða svo lengi eftir því að hitta hann."

Fyrirtaka var í máli Davíðs fyrir tyrkneskum dómstól seinnipart dags í gær. Dómarinn ákvað að leysa hann úr farbanni, en gerði honum að koma aftur til Tyrklands til að vera viðstaddur uppkvaðningu dómsins, segir Þóra.

Hún segir daginn þó ekki hafa gengið áfallalaust fyrir sig hjá Davíð. Hann hafi gleymt að taka vegabréfið sitt með sér í dómsal, og þurft að sækja það í leigubíl. Hún segir það hafa reitt dómarann til reiði og hann hafi ákveðið að sekta Davíð um 700 evrur. Frá því hafi þó verið fallið, enda Davíð peningalítill og ekki átt möguleika á að staðgreiða sektina.

Davíð og Þóra keyptu marmarastein í fríi í Tyrklandi sem reyndist vera fornmunur. Háar sektir eða fangelsisdómur getur legið við fornminjasmygli í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×