Innlent

"Við megum aldrei gefast upp á lífinu“

Ellefu ára gamall drengur tók eigið líf á heimili sínu í Sandgerði síðastliðið föstudagskvöld. Mikil sorg ríkir í bænum og hefur áfallateymi verið virkjað til þess að halda utan um íbúa bæjarins.

Á morgun, mánudag, verður samverustund fyrir nemendur í Grunnskóla Sandgerðis og eru foreldrar beðnir um að mæta með börnum sínum. Drengnum, sem lést, hafði liðið mjög illa í langan tíma og hafði hann áður gert tilraunir til að fyrirfara sér.

„Það er margt sem spilar inn í. Bæði það að hann hefur búið við mikið einelti og glímt við geðraskanir og þungyndi. Það er ekkert hægt að benda kannski á eitthvað eitt. Við skulum fara varlega í það að fella einhverja sleggjudóma, þetta eru margir samverkandi þættir," segir Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur í Sandgerði.

Þegar harmleikur sem þessi á sér stað eru margir sem upplifa sársauka og sektarkennd og upp koma margar EF spurningar.

Hvað skiptir mestu máli í aðstæðum sem þessum?

„Að við stöndum saman og höldum áfram og reynum öll að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig. Það eru margir sem eiga um sárt að binda og margir sem upplifa sektarkennd og það þarf að hlúa að því líka," segir hann.

Öll upplifum við einhvern tímann sorg og finnum til vanmáttarkennd á lífsleiðinni. Hjá sumum getur vanmáttarkenndin orðið það mikil að fólk sér enga leið til að takast á við vandamál sín.

Hvað vill Sigurður segja við þá einstaklinga sem líður illa?

„Við megum aldrei gefast upp á lífinu, aldrei gefast upp. Vegna þess að á meðan við höldum lífi þá er alltaf von. Hún getur virkað fjarlægð og langt í burtu en það er alltaf von. Við eigum aldrei að gefast upp á að leita hjálpar og að tala við einhvern sem við treystum. Halda áfram, það er leiðin til lífsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×