Innlent

138 ferðamenn dáið hér síðan árið 2000

Verkefnastjóri hjá Landsbjörg segir að auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir mörg slysanna sem orðið hafa á síðustu árum.
Verkefnastjóri hjá Landsbjörg segir að auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir mörg slysanna sem orðið hafa á síðustu árum.
Árlega deyja um 12 ferðamenn að meðaltali hér á landi af slysförum. Flest dauðsföllin eru tengd umferðinni en þeim hefur fækkað töluvert á síðustu árum. Alls hafa 138 manns látist á ferðalagi um Ísland síðan árið 2000.

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörgu, segir að þótt banaslysum hafi fækkað hlutfallslega á síðustu árum séu þau enn of mörg.

„Þetta er enn of mikið, það er alveg á hreinu," segir Jónas, sem vann að því fyrir Slysavarnarfélagið Landsbjörg fyrr á árinu að taka saman og greina banaslys í ferðaþjónustu síðasta áratuginn. Notuð var sú skilgreining að viðkomandi hefði verið á ferðalagi frá heimili sínu í að minnsta kosti sólarhring, en einnig tekið inn í ef viðkomandi hefði verið að stunda afþreyingu í dagsferð.

Næststærsti flokkurinn utan umferðarslysa er banaslys í almennri ferðamennsku, sem eru 33 talsins, eða um þrjú á ári. Í grein sem Jónas skrifaði fyrr á þessu ári segir hann að nauðsynlegt sé að hafa í huga að ferðamönnum hafi fjölgað hér á landi á síðustu árum og því hafi slysum fækkað hlutfallslega. Hann segir þó að brýnt sé að huga að forvörnum er varða náttúru landsins, þar sem rúm 80 prósent ferðamanna koma hingað til lands vegna náttúrunnar.

„Svo mörg af þessum slysum eru sárgrætilega óþörf," segir hann og nefnir þar atvikið sem átti sér stað um síðustu helgi þegar ungur Svíi lét lífið á Sólheimajökli. „Hvort sem það var hans að vita eða okkar að fræða, þá eiga menn að vita að fara ekki upp á íslenskan skriðjökul nema á mannbroddum. Og helst ekki nema í för með ferðaþjónustuaðilum."

Jónas segir að með handstýringu ferðamanna, enn frekari reglugerðum og lagasetningum og aukinni fræðslu ætti að vera hægt að fækka slysum og dauðsföllum á ferðalögum hér á landi.

sunna@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×