Innlent

15 ástæður til að elska Ísland

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ferðabloggarinn Giulia heillaðist mikið af landi og þjóð. Hér les hún Fréttablaðið.
Ferðabloggarinn Giulia heillaðist mikið af landi og þjóð. Hér les hún Fréttablaðið.

Ítalski ferðabloggarinn Giulia sem heldur úti vefsíðunni Travelreportage fer fögrum orðum um Ísland í nýjustu bloggfærslu sinni. Hún talar um að allir sem heimsæki Ísland heillist af landslaginu, stórbrotinni náttúrunni og norðurljósunum, en að sjálf hafi hún sérstaklega fallið fyrir ýmsum samfélagslegum þáttum.



Giulia telur upp 15 handahófskenndar ástæður fyrir því að hún féll fyrir landi og þjóð. Fyrst kemur hún inn á hversu jákvæðir Íslendingar eru í garð samkynhneigðra og minnist á að Jóhanna Sigurðardóttir sé fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra sögunnar. Þá er hún virkilega hrifin af þeirri staðreynd að á Íslandi sé enginn her. Hún segir að fólk á Íslandi sé einstaklega vinalegt og stolt af landinu sínu.



Giulia segist hafa fengið þægilegt menningarsjokk á Íslandi. Landið sé mjög frábrugðið því sem hún þekkti en á sama tíma séu öll þægindi til staðar. Að hennar mati er Ísland einstaklega öruggt  og vinalegt, og að það sé staðreynd að vatnið sé best beint úr krananum. Guila segist aldrei hafa þurft að taka peninga úr hraðbanka á Íslandi, bókstaflega allir staðir taki við greiðslukortum. „Ég hef ekki hugmynd um hvernig íslenskir peningar líta út“, segir hún. Þá kemur bloggarinn inn á að það hafi verið einstaklega hentugt að hafa komist í frítt internet nánast allstaðar í Reykjavík.



Upptalning Giuliu er þó ekki alveg laus við klisjur þar sem hún minnist líka  íslensku ullina, tungumalið, huldufólk, veðurfar og sérstök tengsl fólks við náttúruna.



Hér er hægt að lesa bloggfærsluna í heild sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×