Innlent

1500 manns dönsuðu í Hörpu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslendingar dönsuðu í Hörpu í hádeginu í dag til þess að sýna konum og stúlkum, sem upplifað hafa kynbundið ofbeldi, stuðning.

Um heimsviðburð var að ræða á vegum UN Women, Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Markmiðið var að fá einn milljarð fólks um allan heim til þess að sýna stuðning sinn í verki í formi dans í dag, 14. febrúar.

Eftir sýningu myndbands (sem sjá má hér að neðan) og ræðuhalda um tölulegar staðreyndir er varða ofbeldi gagnvart konum um heim allan var kveikt á græjunum. Tónlistin hljómaði og dansinn dunaði.

Flott danstilþrif sáust í Hörpu eins og sjá má í myndbandi í spilaranum hér fyrir ofan.

Stemmningin var góð í Hörpu.
UN Women á Íslandi, V-dagssamtökin og Lunch Beat stóðu fyrir viðburðinum í Hörpu. Telja samtökin að um 1500 manns hafi dansað í Hörpu í dag en þau höfðu vonast eftir um þúsund manns.



Í yfirlýsingu frá samtökunum segir:

Við neitum að búa í heimi þar sem

-Nauðgunarmenning er normið

-Þar sem konum er kennt að hafa varann á sér þegar þær eru einar úti

-Þar sem ungar stúlkur eru þvingaðar og seldar í hjónabönd

-Þar sem konur eru útskúfaðar úr samfélaginu ef brotið er á þeim kynferðislega

-Þar sem konur eru myrtar ef þær eru taldar hafa kastað rýrð á heiður fjölskyldunnar

-Þar sem konum er refsað fyrir að kæra kynferðisbrot

-Þar sem refsileysi ríkir þegar konur eru niðurlægðar í netheimum

Úr Hörpu.
Þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni kyn síns vegna og Einn milljarður kvenna og stúlkna hefur þegar upplifað kynbundið ofbeldi samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum.

Ungir sem aldnir dönsuðu í Hörpu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×