Innlent

1500 nýja blóðgjafa vantar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Nú vantar 1500 nýja blóðgjafa en virkum blóðgjöfum hefur fækkað um 9% frá árinu 2005. Konur gefa síður blóð en karlar og mikilvægt er að ná til þeirra og ungs fólks.

Fækkun blóðgjafa er ekki síst áhyggjuefni þar sem meðalaldur Íslendinga fer sífellt hækkandi og því fyrirsjáanlegt að þörfin fyrir gjafablóð muni aukast. Stefnt er að því að fjölga virkum blóðgjöfum úr 6500 í 8000.

Reynt hefur verið að ná til nýrra blóðgjafa með því að fjölga ferðum Blóðbankabílsins um landið og borgina. „Til að við værum ánægð hér þá þyrftum við að hafa 1500 virka blóðgjafa til viðbótar við það sem við höfum í dag,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, deildarstjóri í blóðsöfnun í Blóðbankanum.

Jórunn segir hættuástand skapast um leið og stór slys verði. „Þá þarf að senda út neyðarkall eins og gerðist hérna þegar Skúli Sigurz var á sínum tíma stunginn á lögfræðistofu, þá þurftum við virkilega að bregðast við en það líka fylltist hér húsið og var biðröð út úr dyrum. Það tókst að bjarga honum en við þurftum að nota mikið blóð.“

Konur gefa síður blóð en karlar og þær standa sig verr en í nágrannalöndunum, svo Jórunn hvetur þær til að mæta. Í meðfylgjandi myndskeiði er rætt við blóðgjafa.

Á heimasíðu Blóðbankans er að finna allar nánari upplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×