Innlent

17 ára hælisleitandi í gæsluvarðahaldi: „Barnaverndarstofa lítur málið alvarlegum augum“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
17 ára hælisleitandi var í tæplega vikulöngu gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum - án vitundar Barnaverndarstofu. Sáttmáli sameinuðu þjóðanna girðir fyrir að börn séu í fangelsi með fullorðnum. Barnaverndastofa lítur málið mjög alvarlegum augum. 



Á síðustu þremur vikum hafa fimm fylgdarlaus börn komið til landsins og er umræddur drengur einn þeirra. Hann var settur í gæsluvarðhald og var á Litla Hrauni í um eina viku.

Drengurinn er frá Miðausturlöndum og  kom til landsins á fölsuðum skilríkjum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist hann vera 17 ára gamall.

„Það virðist sem svo að einstaklingur sem kemur til landisns á milli jóla og nýárs og gefur upp að hann sé yngri en 18 ára, hafi ekki fengið þjónustu frá barnaverndinni og hún ekki upplýst um að hann sé kominn til landins. Viðkomandi svo úrskurðaður í gæsluvarðhald og hann settur á Litla Hraun.  Þegar einstaklingur gefur það upp að hann sé yngri en 18 ára þá á sá einstaklingur að njóta þess vafa og vera meðhöndlaður sem barn, þar til annað kemur í ljós,“ segir Heiða Björg Pálsdóttir, lögfræðingur hjá Barnaverndarstofu.

Heiða útskýrir að samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sé óheimilt að setja börn í fangelsi með fullorðnum einstaklingum. Þegar svo ber undir hafi börn verið vistuð í úrræði á vegum Barnaverndarstofu.  Þá tóku ný lög um útlendinga gildi um áramótin en samkvæmt þeim er Barnaverndarstofu falið að sjá um hagsmunagæslu barna sem koma án forsjáraðila til landsins.„Barnaverndarstofa lítur þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Heiða Björg.

Í dag dvelur drengurinn í móttökumiðstöð á vegum Útlendingastofnunar og hefur Barnaverndarstofa eftirlit með honum.  „Við höfum verið að afla upplýsinga frá þeim yfirvöldum sem koma að máli barnsins og erum áfram að gera það. Við höfum ekki fengið allar skýringar ennþá. Við þurfum að komast til botns í þessu máli. Ef það kemur í ljós að svona mistök hafi virkilega verið gerð eins og það lítur út fyrir að vera þá þurfum við að setjast niður með þeim stjórnvöldum sem hlut eiga að máli til að koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur,“ segir Heiða Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×