Sérleyfishafar á Drekasvæðinu áforma að verja tveimur og hálfum milljarði króna til olíuleitar á Drekasvæðinu á næsta ári. Í fjárlagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar, sem nú liggur fyrir Stórþinginu, er gert ráð fyrir að Norðmenn greiði fjórðung.
Fyrstu tveimur sérleyfunum til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu var úthlutað í ársbyrjun 2013 og í byrjun þessa árs var þriðja sérleyfið afhent en rekstraraðili þess er kínverska ríkisolíufélagið CNOOC. Breska félagið Faroe Petroleum og kanadíska félagið Ithaca fara fyrir hinum leyfunum en það er sammerkt þeim öllum að norska ríkisolíufélagið Petoro er með 25 prósenta hlut.

Leitarhóparnir þrír áforma á næstu vikum að ákveða hversu viðamikil olíuleitin verður á næsta ári. Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 stefnir í að umfangið verði verulegt og að leitað verði fyrir vel á þriðja milljarð króna.
Niðurstöðuna má nú þegar að nokkru leyti sjá í fjárlagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar en þar er leitaráætlun næsta árs kynnt um leið og óskað er fjárheimildar fyrir Petoro Iceland. Þar er gert ráð fyrir að norska ríkið verji á næsta ári um 500 milljónum íslenskra króna til olíuleitar í lögsögu Íslands, með heimild um að skuldbinding norska ríkisins geti orðið allt að 630 milljónir króna.

Í ljósi þess að Norðmönnum er ætlað að greiða fjórðung kostnaðar má af þessu sjá að þeir gera ráð fyrir að allt að tveimur og hálfum milljarði króna verði kostað til olíuleitar á Drekasvæðinu á næsta ári.
Íslendingar geta því búist við að sjá rannsóknarskip koma við í íslenskum höfnum næsta sumar, í líkingu við flotann sem sást á Akureyri fyrir tveimur árum, en í greinargerð norska fjárlagafrumvarpsins kemur fram að gera á bergmálsmælingar, kaupa jarðfræðigögn og jafnvel afla sýna af hafsbotni.
