Innlent

2000 umhverfissinnar boða komu sína í Stjórnarráðið

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
5000 manns tóku þátt í Grænu göngunni 1 maí. Yfir 2000 manns boðað komu sína í Stjórnarráðið í dag.
5000 manns tóku þátt í Grænu göngunni 1 maí. Yfir 2000 manns boðað komu sína í Stjórnarráðið í dag. MYND/LANDVERND

Yfir tvö þúsund manns hafa boðað komu sína í Stjórnaráð Íslands kl 17.15 í dag, þar sem Landvernd mun afhenda forsætisráðherra og umhverfisráðherra umsagnir um rammaáætlun.  

 

Sigmundur Davíð sagði í viðtali á dögunum að þær 400 umsagnir sem bárust til Alþingis og ráðuneyta væru afleiðing upplýsingatækninnar og gætu flokkast sem ein og sama umsögnin. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að ummæli forsætisráðherra geri lítið úr þeirri gífurlegu vinnu sem almenningur og félagasamtök lögðu í umsagnaferlið.  

 

Eins og Vísir greindi frá í gær vonast umhverfisverndunarsinnar til að upplýsa Sigmund um málið, en formaður Landverndar sagði í viðtali við Vísi að hann teldi forsætisráðherra greinilega hafa kynnt sér umsagnirnar afar illa. Á meðal þeirra sem sendu inn umsagnir voru þrettán mismunandi umhverfisverndarsamtök, Hveragerðisbær og Samtök ferðaþjónustunnar. Allar umsagnirnar sem bárust er að finna hér.

 

Guðmundur býst við  margmenni í miðbænum seinni partinn. „Miðað við áhugann og meðbyrinn sem við erum að finna fyrir finnst mér líklegt að það verði býsna margir þarna. Við bjuggumst til dæmis við 500 manns í Grænu gönguna í maí en það komu 5000. Auðvitað vonum við að sem allra flestir komi til að sýna þessu mikilvæga máli stuðning, náttúruverndarfólk mun ekki að fórna náttúru Íslands svo glatt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×