Viðskipti innlent

254 milljörðum lýst í bú Sigurðar Einarssonar

ingvar haraldsson skrifar
Sigurður Einarsson lýsti sig gjaldþrota í september á síðasta ári.
Sigurður Einarsson lýsti sig gjaldþrota í september á síðasta ári. vísir/stefán
Lýstar kröfur í þrotabú Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings, námu 254.388.227.406 krónum. Skiptum í búið er lokið en aðeins fengust 38,3 milljónir króna upp í veðkröfur sem var 3,4 prósent af lýstum veðkröfum. Ekkert fékkst upp í aðrar kröfur.

Stærstu kröfuhafar í búið að sögn Helga Jóhannessonar, skiptastjóra búsins, voru Chesterfield United sem lýsti 99 milljörðum króna, Deutsche Bank sem lýsti 73 milljörðum, Murray Holdings sem lýsti 58 milljörðum og Arion banki sem lýsti 21 milljarði. Helgi segir að ekki hafi verið tekin afstaða til réttmæti krafnanna þar sem ljóst þótti að ekkert fengist upp í þær.

Sigurður Einarsson, sem afplánar nú fjögurra ára fangelsisdóm á Kvíabryggju vegna Al-Thani málsins, lýsti sig gjaldþrota í september síðastliðnum. Íslensk skattyfirvöld hafa krafið Sigurð um 700 milljónir króna vegna kaupréttar sem Sigurður naut sem stjórnarformaður Kaupþings.

Þá var Sigurður dæmur í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2012 til að greiða rúmlega 496 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá 20. ágúst 2010 vegna ábyrgðar á lánum sem hann fékk hjá Kaupþingi til að kaupa hlutabréf í bankanum að því er kemur fram á DV. Slitastjórn hafði áður rift ákvörðun stjórnar Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir Sigurðar og annara lykilstjórnenda á lánunum.

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×