Innlent

33 til 37 fremja sjálfsvíg á hverju ári

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Salbjörg Bjarnadóttir er geðhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu:"Þegar manneskja tekur eigið líf er mikið búið að ganga á hjá henni  í lífinu, það tekur enginn líf sitt af eigingirni eða sjálfselsku,“ segir Salbjörg.
Salbjörg Bjarnadóttir er geðhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu:"Þegar manneskja tekur eigið líf er mikið búið að ganga á hjá henni í lífinu, það tekur enginn líf sitt af eigingirni eða sjálfselsku,“ segir Salbjörg. mynd/365
Alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna er í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Landslæknisembættinu falla á milli 33 og 37 manns á hverju ári hér á landi fyrir eigin hendi eða um tveir til þrír í hverjum mánuði.

Klukkan 20:00 í kvöld verða haldnar kyrrðarstundir í Dómkirkjunni í Reykjavík og í Glerárkirkju á Akureyri  til þess að minnast þeirra sem hafa fallið fyrir eigin hendi.  Þar koma fram aðstandendur sem segja frá reynslu sinni af því að missa náinn ættingja og hvaða áhrif það hefur haft á fjölskylduna, tengsl og annað. Einnig verða hugvekjur og söngur.

Jafnframt verður sagt frá bókinni, Þrá eftir frelsi, leiðarvísir fyrir aðstandendur eftir sjálfsvíg. Annar höfunda er Beverly Cobain geðhjúkrunarfræðingur og frænka Kurt Cobain söngvara Nirvana en hann féll fyrir eigin hendi eins og kunnugt er.

Að sögn Salbjargar Bjarnadóttur, geðhjúkrunarfræðings og verkefnisstjóra forvarna gegn sjáfsvígum hjá Landslæknisembættinu má segja að lát Kurt Cobain hafi markað ákveðin tímamót. Þar til þá höfðu sjálfsvíg, sérstaklega sjálfsvíg þekktra einstaklinga verið upphafin í fjölmiðlum. Við lát Kurt Cobain hafi í raun í fyrsta skipti verið fjallað slíkan dauða og veikindi sem harmleik.

„Þegar manneskja tekur eigið líf er mikið búið að ganga á hjá henni  í lífinu, það tekur enginn líf sitt af eigingirni eða sjálfselsku,“ segir Salbjörg.

Bókinni er ætlað að styðja aðstandendur á þeirri erfiðu sorgargöngu sem tekur við eftir dauðsfall af völdum sjálfsvígs.  Þýðing bókarinnar styrkt af minningarsjóði Orra Ómarssonar, ungs manns sem féll fyrir eigi hendi og í minningu hans. Minningarsjóðurinn hefur jafnframt styrkt gerð vefsíðunnar Sjálfsvíg.is sem er síða til stuðnings við þá sem eru í sjálfsvígshugleiðingum, aðstandendur og eftirlifendur sjálfsvíga.

Aldrei of seint að leita sér aðstoðar

„Það er aldrei of seint að leita sér aðstoðar og það er óskandi að þeir sem hafa ekki gert það hingað til geri það. Bæði þeir sem eru með sjálfsvíghugsanir og ættingjar þeirra sem hafa dáið,“ segir Salbjörg.

Hún segir frá konu sem kom til hennar sem hafði misst 17 ára bróður sinn vegna sjálfsvígs. Konan lýsti því  hvernig enginn hefði þorað að ræða um hann og það hefði í raun verið leyndarmál að hann hafi fyrirfarið sér. Hún átti svo systur sem hafði látist úr krabbameini og upplifði hvernig það var allt öðruvísi hvernig talað var um hana eftir lát hennar.

Í þessu sambandi minnir Salbjörg á það að þeir sem falla fyrir eigin hendi sé fólk sem er komið i öngstræti, jafnvel haldið þunglyndi eða öðrum geðröskunum. Þetta séu grafalvarlegir sjúkdómar sem leiði fólk oft til dauða ef það fær ekki þá hjálp sem það þarf.

Hún nefndir líka að hvatvísi ungs fólks leiði stundum til sjálfsvíga, augnabliks reiði eða ástarsorg , einelti hafa valdið dauða.

Fólk gerir sér oft sjálft ekki grein fyrir því að það sé veikt og þurfi á aðstoð að halda. Það heldur að þetta sé ímyndað. Þetta er oft þannig að fólk er með ákveðin líkamleg einkenni, langvarandi þreytu og verki hér og þar. Einkennin sem þau telja vera líkamlega verki eru oft merki um andleg veikindi sem eru að byrja að herja á fólk.

Það er mikilvægt að þetta fólk fái aðstoð og leiti hennar sem allra fyrst, það eru fimm þættir sem fólk þarf að hafa í hugsa í sambandi við meðferð.

Fólk þarf að fara í viðtöl, fá fræðslu um þunglyndi eða þann sjúkdóm sem það er haldið. Um orsök og afleiðingar og hver einkennin séu. Fá að heyra að það sé alltaf von. Þá getur fólk þurft að gera ákveðnar lífsbreytingar, fólk er oft komið í öngstræti og þarf að bæta og breyta samskiptum við aðra, skoða svefninn , næringu og hreyfingu.

Lyf geta hjálpað mörgum, sumir þurfa lyf tímabundið en aðrir lengur. Það þarf líka að huga að því að öll fjölskyldan verður að fá stuðning, ef einn er veikur getur það haft áhrif á alla. Með réttri meðferð og fræðslu er hægt að koma í veg fyrir millikynslóðaflutning af geðrænum og félagslegum vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×