Innlent

360° myndir komnar á já.is

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sæbrautin
Sæbrautin mynd/Já
Nú geta Íslendingar séð 360° myndir af götum, húsum og fyrirtækjum inn á vef ja.is en sérstakur bíll hefur keyrt um allt land undanfarna mánuði.

Sérstök myndavél var ofan á bílnum sem tók myndir 360° allan tímann en slík þjónustu er einnig að finna á Google Maps.

Notendur geta séð götumyndir af flestum aðalvegum landsins ásamt götum á höfuðborgarsvæðinu og sveitafélögum úti á landi.

Þessi nýja þjónusta er bylting fyrir einnig upp á 360° myndir innandyra fyrir þá sem hafa áhuga á að leyfa viðskiptavinum sínum að kíkja inn og sjá hvað fyrirtæki eða þjónustuaðili hefur upp á að bjóða. 

Hægt er að skoða 360° götumyndir á kortavef Já.is með því að smella hér.

En er munur á þjónustu ja.is og Google Maps?

„Já það er töluverður munur á Já 360° og Google „Street view“ myndunum sem nú eru birtar á kortavef þeirra. Ég tel okkur vera að skila nokkuð betri og notendavænni vöru til neytenda og spilar þar inn í þekking okkar hjá Já á staðháttum og reynsla af rekstri kortavefja á Íslandi. Við notuðum einnig tækifærið og uppfærðum útlit kortavefjarins svo notendur okkar fá í dag afhenta nýja og endurbættan vöru,“ sagði Telma Eir Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri Já.

„Til að nefna eitthvað er t.d. hægt að leita eftir götuheitum og húsnúmerum á Já.is meðan Google gefur notendum aðeins kost á að leita eftir götuheitum. Leit af götuheiti og húsnúmeri skilar þér svo gott sem á dyraþrep þeirrar húseignar sem leitað er að og ættu notendur Já.is því að vera mun fljótari að finna nákvæmlega það sem þeir eru að leita af“.

„Einnig er hægt að nefna að Já.is birtir myndir frá mun fleiri bæjarfélagum úti á landi en kortavefur Google. Til að mynda er hægt að skoða 360° götumyndir á Já.is af Bolungarvík, Raufarhöfn, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum sem ekki eru aðgengilegar hjá Google svo að fáein dæmi séu tekin“.

„Í sumar ók bílstjóri Já 360° bílnum vítt og breytt um landið í þeim tilgangi að taka götumyndir fyrir verkefnið. Teknar voru um 4 milljónir mynda í ferðinni og  greinilegt að landsmönnum fannst verkefnið spennandi miðað við þau jákvæðu viðbrögð og athygli sem bíllinn fékk um land allt“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×