Könnunin var unnin fyrir samtökin Betri spítali sem berjast fyrir því að gerð verði ný fagleg staðarvalsgreining fyrir nýja Landspítalann en samtökin telja betra að staðsetja nýjan spítala austar á höfuðborgarsvæðinu heldur en á núverandi staðsetningu Landspítalans við Hringbraut. 53 prósent svarenda könnunarinnar vilja að stjórnvöld láti gera nýja greiningu á staðsetningu fyrir spítalann. Andvígir því voru 27,7 prósent.
Fjöldi svarenda var 861 og þar af tóku 702 afstöðu eða 81 prósent þeirra sem fengu möguleika á að svara könnuninni. 363 svarenda völdu Vífilsstaði sem ákjósanlegasta staðinn fyrir nýjan Landspítala og 270 við Hringbraut. Þá nefndu 19 Fossvoginn sem ákjósanlegan stað, 7 Keldnaholt, 5 við ósa Elliðaár, 4 á Ártúnshöfða og 33 sögðu annars staðar.


Andstaða við að nýr spítali verði staðsettur við Hringbraut mælist mest hjá kjósendum Framsóknarflokksins en 73 prósent þeirra eru andvígir því að hann rísi þar. 58 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokkins eru andvígir því, 35 prósent kjósenda Samfylkingarinnar, 31 prósent kjósenda Vinstri Grænna og 35 prósent kjósenda Pírata.
„Okkur hjá Betri spítala þykja þessar niðurstöður góðar,“ segir í tilkynningu. „Ef byggður verður nýr spítali á nýjum stað, í stað bútasaums við Hringbraut, fáum við betri spítala, heildarkostnaður verður lægri, spítalinn verður betur staðsettur miðað við framtíðar búsetu á svæðinu sem skiptir afar miklu vegna vegalengda til og frá sjúkrahúsinu og hann mun jafnvel koma fyrr í gagnið.“