Innlent

Aðalfundi Óðins frestað: „Léleg vinnubrögð að koma fram við fólk með þessum hætti“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Magnús segir það léleg vinnubrögð að reyna að fresta fundinum með svo stuttum fyrirvara.
Magnús segir það léleg vinnubrögð að reyna að fresta fundinum með svo stuttum fyrirvara. vísir/gva
Aðalfundi Málfundafélagsins Óðins sem fram fór í kvöld var frestað vegna óviðráðanlegra ástæðna. Meðlimir fengu tölvupóst þess efnis síðdegis í dag með um klukkustundar fyrirvara en fundurinn var engu að síður haldinn og náði mótframbjóðandi Ólafs Inga Hrólfssonar, fyrrverandi formanns, kjöri til formennsku.

Nýr formaður, Eiríkur Ingvarsson, náði kjöri auk átta manna stjórnar. Að sögn Magnúsar Júlíussonar, formanns Sambands ungra Sjálfstæðismanna og meðlims í Óðni, var samhljómur með kosningu til formanns og stjórnar, en þó með þeim fyrirvara að fundurinn væri löglegur.

„Stuðningsmenn Ólafs ætla að láta á þetta reyna. Æðsta vald flokksins þarf að staðfesta kjörið,“ segir Magnús í samtali við Vísi. Hann segir það léleg vinnubrögð að reyna að fresta fundinum með svo stuttum fyrirvara. „Við teljum að þetta sé ekki löglegt. Sá eini sem getur frestað fundi er fundurinn sjálfur þegar boðað er til hans.“

Samkvæmt lögum félagsins á aðalfundur að fara fram í október ár hvert en fundur féll niður í fyrra. Hann var því boðaður í kvöld en svo frestað með þessum stutta fyrirvara.

Hann segir formanninn, Ólaf Inga Hrólfsson, hafa verið í Valhöll í dag en brunað svo í burtu um klukkan hálf fimm. Hann var ekki viðstaddur fundinn og segist Magnús ekki vita hvort hann hafi verið veikur. „Hann var ekki veikari en það að hann var í Valhöll í dag. Hann hefur kannski fengið einhverja skyndiveiki. En það fylgdu engar skýringar í póstinum. Það eru léleg vinnubrögð að koma fram við fólk með þessum hætti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×