Viðskipti innlent

Aðalhagfræðingur Seðlabankans mælir með inngöngu í myntbandalag

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.
Aðalhagfræðingur seðlabankans telur að sjálfstæð peningastefna í litlum hagkerfum eins og Íslandi orsaki vandamál við hagstjórn, án þess að leysa neitt. Hann mælir með inngöngu í myntbandalag, eða myntráð.

Þetta er niðurstaða rannsóknarritgerðar sem Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur seðlabankans, vann í samstarfi við þá Francis Breedon og Andrew Rose. Í ritgerðinni rannsaka þeir skipan peningamála í litlum ríkum hagkerfum.

Þar segir að lítil hagkerfi þurfi að glíma við meiri óstöðugleika í efnahagslífinu en stærri ríki. Þau velji því yfirleitt fastgengisstefnu með því að binda gjaldmiðil sinn gjaldmiðlum annarra ríkja þar sem kostnaður við sjálfstæða peningastefnu er hár í hlutfalli við íbúafjölda í minni ríkjum. Ríki með einhverskonar fastgengisstefnu virðast hafa nokkurn ábata af henni, en höfundar ritgerðarinnar lýsa slíkri stefnu sem ókeypis hádegisverði; þær skapi gengisstöðugleika, án þess að hafa neikvæð áhrif á aðra þætti hagkerfisins.

Þau ríki sem reyni hins vegar að halda í sjálfstæða peningastefnu með því að halda úti fljótandi gjaldmiðli, eins og til dæmis Ísland, virðist ekkert græða á því. Þau glími við meiri óstöðugleika í gengi gjaldmiðilsins, án þess að uppskera minni óstöðugleika í öðrum hagstærðum. Flotgengið orsaki þannig fjölda vandamála við hagstjórn, án þess að leysa nein.

Því hefur stundum verið haldið fram að sveigjanleikinn sem krónan býður hagkerfinu hafi hjálpað Íslendingum eftir kreppuna. Í ritgerðinni kemur fram að fáar sannanir bendi til þess að sveigjanleiki í peningamálum geti hjálpað til við aðlögun í smáum hagkerfum. Þrátt fyrir að sjálfstæður gjaldmiðill geti fræðilega séð dempað högg, þá geti hann einnig sjálfur orsakað þau.

Í ljósi niðurstaðnanna segja höfundarnir hálfgerða ráðgátu af hverju lítil lönd myndu yfir höfuð vilja halda úti fljótandi gjaldmiðli, nema ef vera skyldi af pólitískum ástæðum frekar en efnahagslegum. Í tilviki Íslands benda niðurstöðurnar til þess að ströng fastgengisstefna, eins og þátttaka í myntbandalagi, eða myntráð, sé til bóta og leiði til meiri stöðugleika í efnahagslífinu.

Höfundarnir segja þó að fastgengisstefnan sé engin töfralausn fyrir smáríki, og þau þurfi að beita ríkisfjármálum af krafti til að skapa stöðugleika og vinna gegn hagsveiflunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×