Innlent

Aðeins fimm Íslendingar sóttu um störf á KFC

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Einungis fimm Íslendingar sóttu um störf á skyndibitastaðnum KFC sem auglýsti á dögunum eftir starfsfólki. Þetta kemur á óvart í ljósi þess að um tólf þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá.

Auglýsingin birtist í dagblöðum og á heimasíðu KFC. Óskað var eftir vaktstjóra, tuttugu og fjögurra ára eða eldri og starfsmönnun í sal sem þurftu að hafa náð átján ára aldri. Fram kom í auglýsingunni að starfsmannastjóri tæki á móti áhugasömum á nýjum stað KFC við Sundagarða. Tíu manns létu sjá sig, þar af fimm Íslendingar og var einungis einn þeirra yfir tuttugu ára aldri.

„Mér finnst þetta sorglegt. Ég er miður mín," segir Barbara Kristín Kristjánsdóttir, starfsmanna- og gæðastjóri á KFC.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru í lok október um tólf þúsund manns á atvinnuleysisskrá.

Þar af voru um þrjúþúsund og átta hundruð þeirra undir þrjátíu ára aldri. Í þeim aldurshópi voru um þrjúhundruð og fimmtíu manns með háskólapróf og í kringum þrjúþúsund fjögurhundruð og fimmtíu manns með framhaldsskólapróf.

Þegar Barbara er spurð um hvers vegna ekki sé leitað til vinnumálastofnunar við starfsmannaleit segir hún þetta.

„Mér hefur fundist, þegar ég leita til þeirra, þá er maður að neyða fólk til þess að koma að vinna, og þá fáum við misáhugasamt fólk," segir Barbara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×